Ríkissjóður ósjálfbær með óraunhæfar áætlanir

Ríkissjóði bjargað með aukinni skattheimtu.
Ríkissjóði bjargað með aukinni skattheimtu. mbl.is/Karítas

Inn­herji er skoðana­dálk­ur ViðskiptaMogg­ans.

Fjármála- og efnahagsráðherra, Daði Már Kristófersson, lagði fram fjármálaáætlun fyrir árin 2026-2030 í vikunni. Helsta forgangsmál er að stöðva hallarekstur ríkissjóðs.

Samhliða er nefnt að bæta vegakerfið, utanríkismál, félags- og tryggingakerfið og heilbrigðismál. Framlög til samgöngumála verði aukin um 8 milljarða.

Ráðherra vísar síðan til þess að fjármálaáætlanir síðustu ára, eða allt frá því lög um opinber fjármál tóku gildi fyrir áratug, hafi allar verið óraunhæfar.

Nú blasa við nýir tímar, segir Daði. Þetta muni allt breytast á árinu 2027 þegar ríkissjóður verður rekinn í jafnvægi. Sannarlega áhugavert að nú muni allt breytast þegar sama fólkið í grunninn er að gera áætlanirnar í ráðuneytinu. Áætlanir sem allar voru óraunhæfar að mati ráðherra.

Daði bendir á að þessu göfuga markmiði verði náð með auknum álögum á ökutæki. Nógar eru reyndar álögurnar á ökutæki og hinir ýmsu skattar í þeim málaflokki sem alla tíð hafa átt að fara í vegakerfið hafa endað í öðrum verkefnum stjórnmálamanna. Daði bendir á að 7 milljarðar eigi að fara í gatnakerfið 2026. Af hverju ekki strax, gatnakerfið er ónýtt núna. Reyndar er innviðaskuld í vegakerfinu, samkvæmt skýrslu Samtaka iðnaðarins, á bilinu 265-290 milljarðar króna. Þetta útspil er því einungis gert til að friða háværar raddir samfélagsins um lagfæringar.

Annað sem Daði nefnir eru auknar álögur á sjávarútveginn. Það er reyndar ekki skattur að mati ríkisstjórnarinnar heldur auðlindagjald. Það hljómar mun betur. Því miður fyrir ríkisstjórnina er alls ekki öruggt að þetta leiði til tekjuauka fyrir ríkissjóð þar sem sjávarútvegurinn muni laga viðskiptalíkan sitt að nýjum veruleika og ýmis rekstur mögulega færast úr landi.

Að lokum er það „ehf“-gatið margumtalaða, eða aukin almenn innheimta skatta. Það eru því litlu félögin með einyrkjunum sem munu bjarga ríkissjóði og skattaundanskotin. Undarleg mantra sem virðist fara vel í Samfylkinguna en þau okkar sem lifa í raunheimum vita að þetta mun ekki breyta miklu fyrir ríkissjóð.

Álíka rýrar í roðinu hafa verið fullyrðingar ríkisstjórnarinnar um það hvernig þau ætla að skera niður í ríkisfjármálunum og það þó blásið hafi verið í herlúðra stjórnarinnar til að fá tillögur frá almenningi. Bent er á um 107 milljarða hagræðingu á tímabili áætlunarinnar, samt eru einungis 11 milljarðar sérstaklega tilgreindir. Það er því engin leið að átta sig á því hve raunhæft þetta útspil er. Ólíklegt að þau viti það sjálf.

Krafan er niðurskurður í ríkisútgjöldum til að mæta hallalausum fjárlögum, helst þannig að stjórnmálamennirnir finni fyrir því á eigin skinni. Útlista síðan ætlaðan niðurskurð en ekki eyða tímanum í að finna nýjar leiðir til að hækka skatta, þeir eru of háir ef eitthvað er.

Eða eins og Daði segir sjálfur, áætlanir hafa ekki staðist. Af hverju í ósköpunum ætti niðurstaðan að vera önnur nú?

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK