R. Ravindra, nýr sendiherra Indlands á Íslandi, segist vongóður um að senn hefjist beint flug frá Íslandi til Indlands. Þá sér hann fyrir sér að indverskum ferðamönnum muni fjölga mikið á Íslandi og viðskipti ríkjanna tífaldast í náinni framtíð.
Indland og EFTA-löndin – Sviss, Ísland, Noregur og Liechtenstein – undirrituðu fríverslunarsamning (TEPA) 10. mars 2024.
Sendiherrann segir nýjan viðskiptasamning auðvelda Indverjum að hasla sér völl á Íslandi og það sama gildi um Íslendinga á Indlandi.
„Þetta er mikilvægur samningur. Með honum mun Indland fá betri aðgang að þessum fjórum mörkuðum og öfugt. Indland er gríðarstór markaður með 1,4 milljarða íbúa. Þannig að möguleikarnir eru gríðarlegir. Ég er nokkuð viss um að eftir nokkur ár muni útflutningur Íslands til Indlands og innflutningur frá Indlandi til Íslands líklega tífaldast. Ég geri mér vonir um það,“ segir sendiherrann.
Á vef utanríkisráðuneytisins segir að samningurinn bæti markaðskjör á öllum helstu útflutningsvörum Íslands til Indlands. Frá gildistöku hans muni sjávarafurðir og helstu iðnaðarvörur sem Ísland flytur út ýmist njóta fulls tollfrelsis eða umtalsverðrar tollalækkunar. Þrátt fyrir miklar takmarkanir á innflutningi landbúnaðarafurða til Indlands muni samningurinn tryggja Íslandi tollfríðindi fyrir lambakjöt, vörur úr sjávarþara, drykkjarvatn og óáfenga drykki svo eitthvað sé nefnt.
Ítarlegt viðtal við sendiherrann er að finna í ViðskiptaMogganum í dag.