Harpa var arðbær fjárfesting

Tekjustraumar fóru fram úr áætlun og kostnaði var haldið í …
Tekjustraumar fóru fram úr áætlun og kostnaði var haldið í skefjum. Morgunblaðið/Karitas

Samkvæmt nýútkominni ársskýrslu tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu var síðasta rekstrarár það besta í sögu hússins síðan það var tekið í notkun árið 2011.

Eins og sagt var frá á mbl.is fyrr í vikunni var EBITDA-framlegð 300 milljónir króna og jókst hún um 52% milli ára, eða úr tæplega 200 milljónum.

Tap að fjárhæð 14 m.kr. varð af heildarstarfsemi samstæðunnar borið saman við tæplega 65 m.kr. tap árið 2023. Svanhildur Konráðsdóttir forstjóri Hörpu segir í samtali við Morgunblaðið að tapið sé það minnsta í sögunni. „Við höfum aldrei verið eins nálægt því að vera réttum megin við núllið.“

Rekstrartekjur með framlögum eigenda námu 2,5 milljörðum árið 2024 og hækkuðu um 8,4% milli ára. Rekstrartekjur hússins jukust um 11,8% og námu rúmlega 1,8 milljörðum.

Samhliða útgáfu ársskýrslunnar var kynnt ný skýrsla um efnahagsleg áhrif af starfseminni í Hörpu. Þetta er fyrsta skýrslan af þessu tagi sem unnin er fyrir húsið en Svanhildur ætlar að bæta um betur og láta vinna aðra úttekt á samfélagslegum og menningarlegum áhrifum Hörpu. „Það er auðvitað stóra málið þegar upp er staðið, áhrifin sem húsið hefur á samfélagið.“

Svanhildur segir það hafa blasað við að verðmætasköpun Hörpu birtist ekki nema að litlu leyti í ársreikningum félagsins. „Okkur fannst mjög mikilvægt að freista þess að láta leggja mat á það hvort það hefði verið góð fjárfesting að byggja húsið til að byrja með.“

10 milljarða virðisauki

Í skýrslunni kemur m.a. fram að árlegur virðisauki af starfseminni í Hörpu sé 10 milljarðar króna og heildarskatttekjur níu milljarðar sem sé rúmlega 15 sinnum hærra en hið sérstaka rekstrarframlag sem hið opinbera, ríki og borg, leggur til Hörpu. Þá segir að 650 störf megi rekja með beinum, óbeinum og afleiddum hætti til starfseminnar í Hörpu.

Svanhildur segir að við mat á hagrænu áhrifunum hafi skýrslur sem gerðar hafa verið fyrir sambærileg hús í Sydney í Ástralíu, Bristol á Englandi og í Hamborg í Þýskalandi verið lagðar til grundvallar. „Við höfum auðvitað mikinn áhuga á að skoða hvers virði það er að hafa svona táknmynd í borginni. Tónlistarhöllin glæsilega Elbphilharmonie í Hamborg hefur t.d. haft gríðarleg áhrif á hafnarsvæðið sem áður var frekar hrátt. Annað hús sem ég þekki vel og er oft notað sem gott dæmi um þessi áhrif er Guggenheim-listasafnið í Bilbao á Spáni. Það hefur haft þessi umbreytandi áhrif á borgina, menningarlífið og hagkerfið. Allt í einu er Bilbao orðin eftirsóttur áfangastaður ferðamanna og menningin blómstrar.“

Svanhildur segir að skýrslan staðfesti að bygging Hörpu hafi verið góð ákvörðun og undirstriki skýrt framsýni þeirra sem börðust fyrir byggingu hússins og hinna sem stóðu í stafni hjá ríki og borg, þótt málið hafi verið umdeilt í kjölfar efnahagshrunsins. „Var þetta arðbær fjárfesting á sínum tíma? Svarið er augljóslega já,“ segir Svanhildur.

Hún segir miklu skipta að fá fullvissu fyrir þessu enda sé það þjóðin og almenningur sem eigi húsið í gegnum ríki og borg.

„Ég hef alltaf sagt að það sé góður „bissness“ að reka Hörpu. Nú hefur það verið staðfest.“

Jákvætt viðhorf

Svanhildur segir að viðhorf til Hörpu hafi samkvæmt mælingum verið mjög jákvætt síðustu ár. Til dæmis hafi 67% Íslendinga komið í húsið í fyrra og aðeins 6% landsmanna hafi ekki jákvæð viðhorf til Hörpu. Áður fyrr hafi umræðan þó oft verið neikvæð. „Auðvitað stóðu væntingar til þess að reksturinn yrði sjálfbær án frekari framlaga frá hinu opinbera, en það hefur ekki reynst raunhæft. Við erum með risavaxinn efnahagsreikning og því 430 m.kr. afskriftir á ári. Þá greiðum við 350 m.kr. í fasteignagjöld á ári. Á móti fáum við um 600 m.kr. í framlög frá eigendum.“

Hluti ástæðu þess að vel gekk á síðasta ári var að flestir tekjustraumar fóru fram úr áætlun og að kostnaði var haldið í skefjum. Svanhildur segir að kostnaðaraðhald sé áskorun í stóru húsi eins og Hörpu þar sem reksturinn er flókinn og fjárfestingar- og viðhaldsþörf mikil.

Ýmsar hrakspár voru í upphafi um viðhald glerhjúps Ólafs Elíassonar myndlistarmanns utan á húsinu, en Svanhildur segir þær ekki hafa ræst. „Reynslan af viðhaldi hússins er að langmestu leyti mjög góð. En það breytir ekki því að húsið er orðið fjórtán ára og kallar á stöðugt viðhald. Við sjáum núna til dæmis að þéttingin sem heldur glerinu í hjúpnum er farin að kalla á athygli. Það er gaman að segja frá því að ef hún yrði lögð í eina línu næði strengurinn frá Reykjavík til Borgarness,“ segir Svanhildur og brosir.

Forstjórinn segir það liggja í hlutarins eðli að í stóru húsi þar sem mikið er að gerast sé álag á innviði. „Í fyrra vorum við með rúmlega 1.400 viðburði í húsinu. Það er gríðarlega góð nýting á húsinu og kallar á stöðugt viðhald. Tæknibúnaðurinn sem keyptur var hingað inn í upphafi á 2,5 milljarða kallar til dæmis á markvissa endurnýjun. Heilt yfir hefur þetta hús reynst afar vel hannað á alla kanta og eldist vel.“

Harpa missti spón úr aski sínum í fyrra þegar Íslenska óperan fór úr húsinu. „Óperan var ekki í upphaflegu forsendunum en það hefur samt komið vel út að hafa óperusýningar í Eldborg. Það er eftirsjá að þeim. Auk þess hefur brotthvarf Íslensku óperunnar haft neikvæð áhrif á tekjur Hörpu. Við fögnum því mjög að nú hefur menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra lagt fram nýtt frumvarp um óperustarfsemi. Þar er skýrt tekið fram að aðsetur nýrrar óperu verði í Hörpu þótt starfsemin muni verða hluti af Þjóðleikhúsinu.“

Aldrei meiri velta

Til að mæta tekjumissinum hefur verið lagt meira kapp á betri nýtingu á því plássi sem losnaði. „Það gekk þokkalega í fyrra en við spyrjum að leikslokum með þetta ár. Síðasta ár var samt í öllum skilningi ár tónlistarinnar í Hörpu. Dagskráin var ótrúlega fjölbreytt, alþjóðlegar stórstjörnur og flest af okkar allra besta tónlistarfólki steig á svið í Hörpu. Veltan af tónleikahaldi hefur aldrei verið meiri og fjöldi seldra miða sló öll met með 228.000 miðum, sem er 32% aukning á milli ára.“

Rekstrarmódel Hörpu gengur út á að 95% allra viðburða séu á vegum annarra en hússins sjálfs. „Stærsti einstaki viðburðahaldarinn er Sinfóníuhljómsveit Íslands sem er íbúi hér. Þau eru alla jafna með um 100 viðburði á ári og eru auðvitað hjartað í húsinu.“

Viðburðirnir eru annars ákaflega margbreytilegir eins og Svanhildur útskýrir. „Þetta er allt frá risaviðburðum eins og þriggja daga ráðstefnu Arctic Circle eða leiðtogafundi Evrópuráðsins, sem yfirtók allt húsið, til persónulegra atburða s.s. skírna, ferminga og jafnvel útfara.“

Harpa á að sögn Svanhildar að vera samkvæmt dagskrárstefnu aðgengileg og opin öllum óháð efnahag. Þannig er til dæmis öll fjölskyldudagskrá á vegum Hörpu gjaldfrjáls.

Aðspurð segir Svanhildur að Harpa sé með mun fjölbreyttari dagskrá en mörg sambærileg hús. „Ég vona að við stöndum undir nafni sem samkomuhús þjóðarinnar.“

Ráðstefnutengdum viðburðum – svokölluðum MICE-viðburðum, fækkaði í fyrra frá árinu á undan. „Að öllu jöfnu náum við betri árangri í rekstrinum þegar ráðstefnutengdir viðburðir eru sem flestir því framlegðin af þeim er meiri en af tónlistarviðburðum. Síðasta ár var þó undantekningin frá þeirri meginreglu.“

Spurð hvort Harpa sé komin á kortið alþjóðlega og hvernig markaðssetning hússins gangi segir Svanhildur að það sé alveg skýrt að Harpa sé komin duglega á kortið. Hvað ráðstefnuhlutann varði sé Harpa aðili að Ráðstefnuborginni Reykjavík og þannig í góðu samstarfi við Íslandsstofu um markaðssetningu.

„Það urðu vatnaskil með byggingu Hörpu hvað stórar ráðstefnur varðar, 500 manns og fleiri. Ef velta við slíka ráðstefnu er kannski 30 m.kr. fyrir Hörpu eru afleidd áhrif um 300 m.kr. fyrir nærumhverfið og hagkerfið í heild. Það er því eftir miklu að slægjast eins og hagræna úttektin leiðir svo vel í ljós. Við leitum markvisst að vænlegum erlendum viðburðum til að bjóða til Reykjavíkur í samvinnu við Ráðstefnuborgina. Við erum þá iðulega að keppa við borgir sem leggja jafnvel rausnarlegar sporslur með slíkum tilboðum til að auka líkurnar á að viðburðahaldarinn velji þá staðsetningu. Það er hins vegar lítil hefð fyrir þessu hér og samkeppnisstaðan því stundum skökk í þessum leik. Þrátt fyrir þetta trompar Ísland og viðburðahús eins og Harpa iðulega hagstæðari boð,“ útskýrir Svanhildur.

Hún segir að Eldborg sé orðin heimsþekkt sem fallegur salur með hljómburð á heimsmælikvarða. Þá hafi góð aðstaða og þjónusta byggt upp sterkt og jákvætt orðspor. „Ég segi stundum bæði í gamni og alvöru að starfsfólkið sé fegurð hússins – en það er einfaldlega framúrskarandi fólk og á heiðurinn af þessum góða árangri sem við náðum á liðnu ári.“

Ítrekað með viðburði

Forstjórinnn segir að fjöldi fyrirspurna og tilboða berist til Hörpu í hverri einustu viku frá erlendum umboðsmönnum og viðburðahöldurum. „Sem dæmi þá er einn tiltekinn erlendur tónleikahaldari sem hefur komið hingað ítrekað með uppselda viðburði. Á hans vegum kom t.a.m. hljómsveit sem spilaði allar helstu plöturnar sínar á þrennum tónleikum. Þeim fylgdu hátt á annað þúsund áhorfendur sem fljúga til landsins, gista í 4-5 nætur, ferðast og borða á veitingastöðum, versla og nýta fjölbreytta afþreyingu til viðbótar við það að fylla Eldborg þrisvar. Þetta er gott dæmi tónlistarmegin um jákvæð hagræn áhrif af viðburðahaldi í Hörpu,“ segir Svanhildur Konráðsdóttir forstjóri Hörpu að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK