Hertz á Íslandi hefur tekið yfir rekstur bílaleigumerkjanna Dollar Rent A Car og Thrifty Car Rental á Íslandi.
Þessi breyting er í samræmi við stefnu móðurfélagsins og ákvörðun Hertz Global Holdings, sem keypti Dollar Thrifty Automotive Group árið 2012.
Vörumerkin Dollar og Thrifty hafa frá árinu 2009 verið starfrækt á Íslandi af Brimborg ehf. enfærast nú yfir til Hertz á Íslandi.
Kemur þetta fram í tilkynningu frá Hertz á Íslandi og þar er haft eftir Sigurði Berndsen, forstjóra:
„Við erum gríðarlega ánægð með þessa yfirfærslu og erum spennt fyrir þeim tækifærum sem hún færir okkur. Með því að bæta Dollar og Thrifty við okkar vörumerkjafjölskyldu getum við boðið viðskiptavinum enn fjölbreyttari þjónustu og úrval af bílaleigubílum, sem mun styrkja stöðu okkar á markaðnum og sérstaklega til erlendra ferðamanna.“