Arion banki hefur gefið út nýja hagspá fyrir árin 2025-2027 undir yfirskriftinni: „Með vindinn í fangið“. Þar kemur fram að hagvöxtur í ár verði svipaður og áður var talið, þrátt fyrir versnandi horfur í útflutningi. Drifkrafturinn liggur nú í meiri einkaneyslu og innlendum fjárfestingum. Þá kemur fram að ferðaþjónustan muni glíma við áskoranir á næstu misserum.
„Þótt hagvaxtarspáin okkar sé svipuð og áður hefur það breyst hvernig vöxturinn skiptist. Áður var spáð útflutningsdrifnum vexti, en nú eru það innlend umsvif sem ráða ferðinni,“ segir Erna Björg Sverrisdóttir, aðalhagfræðingur Arion banka, í samtali við Morgunblaðið.
Samkvæmt spánni verður hagvöxtur í kringum 1,3% árið 2025, en gert er ráð fyrir að hann glæðist á næstu árum. Einkaneysla rekur áfram vöxtinn, en einnig eru vísbendingar um aukna fjárfestingu í gagnaverum, fiskeldi og annarri hugvitsdrifinni starfsemi.
Fram kemur að aðhaldsstig peningastefnunnar verði áfram mikið næstu misseri, eins og Seðlabankinn hefur gefið út.
„Við gerum ráð fyrir að aðhaldið haldist þétt áfram og raunvextir lækki ekki fyrr en á seinni hluta ársins. Það eru ekki skilyrði til að slaka á þéttu taumhaldi enn sem komið er,“ segir Erna.
Hún bendir á að þrátt fyrir minnkandi verðbólgu til skemmri tíma sé undirliggjandi þrýstingur enn til staðar. „Við erum svartsýnni á verðbólgu en Seðlabankinn sjálfur. Krónan virðist ívið of sterk um þessar mundir, sem gæti leitt til bakslags ef hún veiktist skyndilega. Þá eru launahækkanir og launaskrið meiri en við reiknuðum áður með, sem hefur áhrif á verðlagsþróun.“
Ein helsta breytingin frá fyrri spá voru versnandi horfur í ferðaþjónustu. Í nýlegri tilkynningu frá flugfélaginu Play kom fram að fyrirtækið myndi breyta rekstrarlíkani sínu og leigja frá sér flugvélar. „Við sjáum fram á að það dragi úr komum ferðamanna, það hefur bein áhrif á útflutningstekjur,“ segir Erna.
Þá eru einnig áhyggjur af alþjóðlegum aðstæðum, þar sem minna flugframboð frá erlendum flugfélögum og hægari vöxtur á heimsvísu hafa áhrif á íslenskan útflutning almennt. „Óvissan hefur aukist og áhættan er meiri niður á við en áður. Þetta snýst ekki bara um tollamál, heldur áhrif þeirra á heimshagvöxt, sem getur haft neikvæð áhrif á eftirspurn eftir okkar vörum og þjónustu.“
Á sama tíma og hefðbundnum útflutningsgreinum á borð við ferðaþjónustu og sjávarútveg eru skorður settar eru vaxandi vonir bundnar við nýjar atvinnugreinar. „Við sjáum vöxt í hugverkadrifinni starfsemi, sem og í lyfjaframleiðslu og landeldi þar sem áformin eru stórhuga. Þetta eru greinar sem gætu vegið þyngra í framtíðinni, sérstaklega ef áhrif alþjóðlegs samdráttar verða minni en við óttumst,“ segir Erna.
Þrátt fyrir áskoranir í útflutningi sýnir ný spá bankans að íslenskt hagkerfi stendur sterkt. Einkaneysla er megindrifkrafturinn, og fjárfesting í nýsköpun og þekkingariðnaði gæti orðið lykilþáttur í að jafna út áhrifin af samdrætti í hefðbundnum greinum.
„Við erum hóflega bjartsýn. Það eru blikur á lofti, sérstaklega í alþjóðamálum, en það hefur komið okkur á óvart hvað heimilin standa sterkt. Það skiptir miklu máli þegar aðstæður versna tímabundið,“ segir Erna að lokum.