Það er komið í ljós hversu misráðið það var að færa eftirlit með póstþjónustu frá Póst- og fjarskiptastofnun til Byggðastofnunar, samhliða því sem Byggðastofnun eigi að framkvæma byggðastefnu stjórnvalda. Jafnframt liggur fyrir að gríðarlegt tap hefur orðið af alþjónustu Íslandspósts.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í erindi Félags atvinnurekenda (FA) til innviðaráðuneytisins og fleiri aðila í stjórnkerfinu, þar með talið Samkeppniseftirlitsins.
Til upprifjunar er kveðið á um það í lögum um póstþjónustu (nr. 98/2019) að allir notendur póstþjónustu á Íslandi skuli eiga rétt á alþjónustu sem uppfyllir gæðakröfur og er á viðráðanlegu verði.
„Félag atvinnurekenda (FA) hefur vaxandi áhyggjur af að það hafi reynzt rétt sem félagið varaði við í umsögn til Alþingis, er lagt var fram frumvarp um flutning eftirlits með póstmarkaði til Byggðastofnunar á 151. löggjafarþingi, að það gæti reynzt stofnuninni erfitt að sinna samtímis framkvæmd byggðastefnu stjórnvalda og hlutlægu eftirliti með samkeppni á póstmarkaði,“ segir í erindinu sem var ritað af Ólafi Stephensen framkvæmdastjóra FA.
Samkvæmt lögum um póstþjónustu (nr. 98/2019) skal Byggðastofnun meðal annars „stuðla að samkeppni á sviði póstþjónustu og koma í veg fyrir óréttmæta viðskiptahætti með því að vinna gegn röskun eða takmörkun samkeppni á póstþjónustumarkaði“.
Félag atvinnurekenda telur hins vegar að á grundvelli óljósra reglna stofnunarinnar hafi Íslandspósti ohf. (ÍSP) verið veitt fjárframlög úr ríkissjóði frá árinu 2020 sem teljast í milljörðum, þvert á ákvæði laganna.
Nánari umfjöllun má finna í Morgunblaðinu í gær, laugardag. Einnig má nálgast hana án endurgjalds í Mogganum, nýju appi Morgunblaðsins og mbl.is.