Bandarískir hlutabréfamarkaðir opnuðu með verulegri lækkun í dag, í kjölfar áframhaldandi óvissu vegna nýrra tolla sem Donald Trump forseti kynnti í síðustu viku. Markaðir höfðu þá þegar tekið skell og ótti fjárfesta við viðbrögð frá Kína hélt áfram að þrýsta á hlutabréfaverð.
Skömmu eftir opnun snerist þróunin við. Fjölmiðlar greindu frá því að Hvíta húsið væri að íhuga að fresta tollum í 90 daga fyrir öll lönd nema Kína. Kevin Hassett, efnahagsráðgjafi forsetans, sagðist í samtali við fjölmiðla ekki útiloka slíkt hlé og markaðir brugðust tafarlaust við.
Uppgangurinn stóð þó stutt. Hvíta húsið brást við með yfirlýsingu og hafnaði fréttunum sem „ósönnum.“ Því féllu markaðirnir á ný og Nasdaq, S&P 500 og Dow Jones snéru við í rauðar tölur þegar óvissan blossaði aftur upp.
Fjárfestirinn Bill Ackman hafði hvatt til 90 daga hlés og varað við „efnahagslegum kjarnorkuvetri.“ Forstjóri JPMorgan Chase, Jamie Dimon, varaði einnig við því að tollarnir gætu aukið verðbólgu og hægt á hagvexti, nema tekið yrði á málinu með festu.
Þótt tímabundin frestun tolla gæti dregið úr spennu tímabundið þá vekur þessi þróun spurningar: Hvað tekur við eftir 90 daga? Enn og aftur sama rússíbanasveiflan? Fjárfestar kalla nú eftir fyrirsjáanleika og stöðugri stefnu — en í bili virðist markaðurinn í höndum eins manns.