Hlutabréfamarkaðir hafa hríðfallið í Asíu í kjölfar tollahækkana Donalds Trumps, forseta Bandaríkjanna, á innflutningsvörur til Bandaríkjanna sem tóku gildi fyrir helgina.
Við opnum markaða í morgun voru eldrauðar tölur í Asíuríkjunum og til að mynda lækkuðu hlutabréf í Singapúr um meira en sjö prósent, í Hong Kong um tólf prósent, í Suður-Kóreu um fimm prósent, í Sjanghaí um fjögur prósent og í Japan lækkaði Nikkei-vísitalan um 6,5 prósent.
Shigeru Ishiba, forsætisráðherra Japans, segir að innflutningstollarnir hafi skapað kreppu í landinu en Trump tilkynnti í síðustu viku 24 prósenta toll á japanskar vörur ofan á 25 prósent toll sem þegar er á bílainnflutningi frá landinu.
Ishiba segir að ríkisstjórn hans verði að grípa til allra tiltækra ráðstafana til að milda efnahagsáfallið af tollunum, þar á meðal að bjóða fyrirtækum fjármagn.
Eftir lokun asískra markaða á föstudaginn greindu stjórnvöld í Kína frá því að það ætli í hefndaraðgerðir og frá og með 10. apríl verður lagður á 34 prósent tollur á allar bandarískar vörur.
Þá hefur hlutabréfamarkaðurinn í Ástralíu tekið mikla dýfu en þar féll hlutabréfavísitalan niður um sex prósent.