Endanleg ákvörðun um kaup ítalska tískuhússins Prada á Versace verður tekin síðar í þessari viku. Reuters greindi frá þessu á sunnudag og hefur eftir ónafngreindum heimildarmanni sem þekkir vel til málsins. Passar þetta við fréttaflutning ítalska dagblaðsins Corriere della Sera sem upplýsti á sunnudag að mögulega yrði tilkynnt um samruna félaganna á fimmtudag og að kaupverð Versace verði einn milljarður evra. Yrði það um þriðjungi lægri upphæð en búist hafði verið við, en Versace hefur átt undir högg að sækja að undanförnu og verið rekið með tapi.
Orðrómur fór fyrst á kreik í mars um að félögin kynnu að sameinast, en um sama leyti var greint frá að Donatella Versace myndi láta af störfum sem listrænn stjórnandi tískuveldisins sem bróðir hennar, Gianni Versace heitinn, stofnaði árið 1978.
Versace var skotinn til bana fyrir framan heimili sitt í Miami árið 1997 og tók Donatella við rekstrinum í kjölfarið. Lúxusvörusamsteypan Capri Holdings eignaðist félagið árið 2019 og greiddi þá rösklega 2,1 milljarð dala fyrir. ai@mbl.is
Greinin birtist upphaflega í Morgunblaðinu 7. apríl.