Komal Singh sótti Ísland heim fyrr í mánuðinum í tilefni af HönnunarMars og síðastliðinn föstudag tók hún þátt í pallborðsumræðum um fjármagn og hönnun í höfuðstöðvum Landsbankans. Jafnframt leiddi hún umræður í sýningarsal Polestar á laugardag þar sem kastljósinu var beint að sjálfbærnistýrðri hönnun.
Singh er hönnunarsérfræðingur efna og lita hjá rafbílaframleiðandanum Polestar en hún er textílhönnuður að mennt og lærði fag sitt á Indlandi þar sem hún ólst upp. Úr náminu lá leið Singh til Volvo þar sem hún hlaut að lokum stöðu efnis- og litahönnuðar, en í framhaldinu réð Singh sig til Polestar og hefur hún verið í lykilhlutverki í hönnunarteymi fyrirtækisins alla tíð síðan.
Singh segir að strax í upphafi hafi sú lína verið mörkuð hjá Polestar að hafa þrennt að leiðarljósi: hönnun, nýsköpun og sjálfbærni. Hún tekur undir með blaðamanni að varla megi finna þann bílaframleiðanda sem ekki segist hafa nákvæmlega sömu stefnu, og að enginn skortur sé á grænþvotti í geiranum, en Singh segir að hjá Polestar hafi þessir þrír þættir í raun og sann verið undirstaðan að starfseminni: „Og þar sem við þurftum að byrja frá grunni höfum við getað látið þessi gildi fléttast vel saman með nánu samstarfi þvert á deildir, sem að lokum skilaði sér í virkilega góðri vöru.“
Að sögn Singh var það á vissan hátt auðveldara fyrir glænýjan bílaframleiðanda að sinna þessum þremur aðaláherslum vel því skapa þurfti allar aðfangakeðjur frá grunni sem veitti gott tækifæri til að vanda til verka og hámarka gagnsæi. „Það vill bregða við hjá bílaframleiðendum að gagnsæi getur verið mjög ábótavant og skrifast að vissu leyti á það hvað aðfangakeðjur í greininni geta verið flóknar. En gagnsæi og sjálfbærni hafa líka víða verið í aukahlutverki og meiri áhersla lögð á aðra hluti – og skýringin að vissu marki að lengi vel gáfu neytendur sjálfbærni ekki mikinn gaum. Það er ekki fyrr en á seinni tímum að hinn almenni neytandi hefur byrjað að láta sig varða hvort bíllinn sem honum líst á hafi verið smíðaður með áhrif á umhverfi og samfélag í huga.“
Singh tekur undir að þessi mikla áhersla á sjálfbærni og gagnsæi falli einkar vel að áherslum kaupendahóps rafbíla, enda hafa margir tekið það skref að skipta yfir í grænna farartæki gagngert til að reyna að lágmarka neikvæð áhrif af eigin neyslu og kauphegðun.
Í öllum rekstri getur verið freistandi að stytta sér leið, og er ekki erfitt að ímynda sér hvernig það gæti flækt störf hönnuða eins og Komal Singh að þurfa alltaf að hafa það á bak við eyrað hvernig hámarka megi sjálfbærni hjá fyrirtækinu. Hún segist samt ekki líta á sjálfbærnikröfuna sem kvöð, heldur þvert á móti sem skemmtilega áskorun. „Mér þætti starfið hreinlega ekki nógu krefjandi ef það eina sem ég þyrfti að gera væri að skila af mér fallegri útkomu. Þetta er munurinn á stílfærslu (e. styling) og hönnun (e. design), og veigamikill þáttur í hönnunarhlutanum að hugsa vel og vandlega um efnisvalið. Það að taka sjálfbærniþáttinn með í reikninginn hefur í reynd þau áhrif að ég þarf að leita að fleiri valkostum en þessum hefðbundnu efnum sem bílaframleiðendur nota, og leiddi það okkur t.d. inn á þá braut að starfa með svissnesku sprotafyrirtæki sem hefur þróað frábæra nýja gerð af lífrænum koltrefjum sem gerðar eru úr hörplöntutrefjum. Í innréttingunum höfum við síðan sótt innblástur til íþróttafatnaðar, sem og til jakkafataframleiðenda. Ull hefur t.d. reynst vel sem áklæði á sætum og við notumst þar við klæði af allra bestu gerð, þar sem ullarhlutfallið fer upp í 80% á meðan aðrir bílaframleiðendur sem notast við ull hafa í mesta lagi farið upp í 30%. Með þetta efni í höndunum þurftum við, í hönnunarferlinu, að hafa svipaða hluti í huga og ef við værum að sauma virkilega vel sniðin jakkaföt.“
Allt virkar þetta til að veita Polestar sérstöðu í hugum neytenda, og Singh tekur undir það að metnaðarfull hönnun geti líka skapað mikið umtal og þannig virkað sem markaðstól. „Það vakti t.d. athygli að Polestar 4 skyldi ekki hafa afturrúðu, en í staðinn er baksýnisspegillinn tengdur við myndavél sem sýnir einkar vel svæðið á bak við bílinn. Þetta þýddi líka að við gátum fært C-súluna aftar og skapað mun íburðarmeira rými fyrir farþega í aftursætunum. Að sleppa afturrúðunni var ekki gert til þess eins að vera öðruvísi og fólk áttar sig á því strax og sest er uppi í bifreiðina.“
Að því sögðu þá bendir Singh á að nýsköpunin, hönnunin og sjálfbærnin megi ekki ganga svo langt að stangist á við óskir viðskiptavinarins. Hún nefnir í því sambandi að þó að gervileður og ull séu notuð í innréttingar Polestar – verandi umhverfisvæn efni – þá sé líka hægt að fá innréttingarnar gerðar úr hefðbundnu leðri. „Við getum unnið innan þess ramma að nautgripaleður verður alltaf hliðarafurð kjötframleiðslu og fórum við þá leið að vinna með fyrirtæki í Skotlandi sem leggur svo mikinn metnað í sína framleiðslu að rekja má hvert skinn að tilteknu bóndabýli. Valið er því kaupandans ef honum þykir leðrið ákjósanlegri kostur.“
Þó að ekki sé lítið fyrir þessu öllu haft segir Singh að útkoman sé sú að gæðin fari ekki á milli mála í upplifun kaupandans af ökutækinu, og úthugsuð hönnun og efnisval veiti eigandanum eins konar tryggingu fyrir því að smíði bílanna sé vönduð og þeir bæði öruggir og áreiðanlegir. „Útkoman er líka sú að bifreiðarnar frá Polestar hafa greinilega „sál“ og „persónuleika“ og fyrir vikið finnur fólk fyrir sterkari tengingu við ökutækið.“
Greinin birtist upphaflega í Morgunblaðinu mánudaginn 7. apríl.