Gunnar Erlingsson, skuldabréfamiðlari í markaðsviðskiptum Arion banka, segir í samtali við Morgunblaðið að skuldabréfafjárfestar séu nú bjartsýnni á verðbólgu til skamms tíma en í upphafi árs. Þannig vænta þeir nú aðeins 2,9% verðbólgu til eins árs, en um 3,5% í upphafi árs. Það megi lesa út frá verðbólguálagi á skuldabréfamarkaði, sem er fundið út frá mismun óverðtryggðra og verðtryggðra ríkisskuldabréfa.
„Verðbólguálag til eins árs er nú aðeins 2,9%, en er um um 100 punktum hærra sé horft til verðbólguálags til fimm ára,“ segir Gunnar og bendir á að það hljóti að teljast jákvæð tíðindi fyrir Seðlabankann að sjá skammtímavæntingar færast nær verðbólgumarkmiði þótt langtímavæntingar mættu vissulega þokast neðar.
Hann nefnir einnig að það kunni að vera áhugavert að setja þessar væntingar í samhengi við verðbólguvæntingar heimilanna í nýlegri könnun Gallup fyrir Seðlabankann, en heimilin vænta 5% verðbólgu til eins árs. Það sé því óhætt að segja að skuldabréfafjárfestar séu töluvert bjartsýnni en heimilin á verðbólguþróun til skamms tíma. Greining Arion spáir 3,6% verðbólgu til eins árs samkvæmt hagspá sem kom út í síðustu viku.
„Það er einnig athyglisvert að setja væntingarnar í samhengi við lækkanir á hlutabréfamarkaði enda ætti sá markaður að njóta einna mest góðs af lækkandi verðbólgu og þar með vöxtum. Það er þó ákveðinn flæðisvandi sem skýrir það að hluta, sem og óvissa tengd tollaáhrifum, sem gæti mögulega vakið áhuga þolinmóðra langtímakaupenda enda lækkanir innanlands ekki í takt við hlutabréfamarkaði í Evrópu á árinu,“ segir Gunnar.
Stysta verðtryggða ríkisskuldabréfið sem er á gjalddaga í febrúar á næsta ári, RIKS 26, sé verðlagt á tæplega 5% ávöxtunarkröfu. Gunnar segir að líkja megi bréfinu við verðtryggðan víxil enda stutt eftir af bréfinu.
„Telji fjárfestar að verðbólga til eins árs reynist hærri en 2,9%, eða vænti lægri raunvaxta til dæmis vegna efnahagssamdráttar í kjölfar tollastríðs, þá má velta fyrir sér hvort RIKS 26 veiti ágætisskjól næstu tíu mánuðina,“ segir Gunnar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.