Netöryggisfyrirtækið Keystrike hefur ráðið Jóhönnu Vigdísi Guðmundsdóttir sem yfirmann sölu, markaðsmála og viðskiptaþróunar fyrir Evrópumarkað.
Segir í tilkynningu Keystrike að Jóhanna Vigdís hafi víðtæka reynslu úr nýsköpun, tækni og opinbera geiranum og hafi ítrekað sýnt árangur í að leiða vaxtarskeið fyrirtækja og stofnana.
Jóhanna Vigdís kemur til Keystrike frá Defend Iceland, þar sem hún stýrði sölu og viðskiptaþróun. Áður gegndi hún lykilhlutverki í framkvæmd máltækniáætlunar fyrir íslensku hjá Almannarómi, þar sem hún leiddi samstarf við stórfyrirtæki á borð við OpenAI og Microsoft.
Það samstarf leiddi til þess að íslenska varð fyrsta tungumál heims, annað en enska, sem kom inn í ChatGPT. Ferill hennar spannar einnig stjórnunarstöður hjá Háskólanum í Reykjavík og Straumi fjárfestingarbanka.
„Við erum mjög ánægð með að fá Jóhönnu í teymið til að leiða sölu og viðskiptaþróun á Íslandi og í Evrópu. Við sjáum fyrir okkur mikinn vöxt á næstu mánuðum og reynsla hennar mun nýtast vel til að sækja á nýja markaði, enda hentar lausn Keystrike fyrirtækjum sem þurfa að verja mikilvæga innviði, og uppfylla NIS2 og DORA-reglugerðir, einstaklega vel,“ segir Valdimar Óskarsson, framkvæmdastjóri Keystrike, í tilkynningunni.
„Netöryggisvörn Keystrike er fyrsta raunverulega nýjungin í öryggisgeiranum í langan tíma – ný aðferðafræði sem hefur þegar sannað sig enda búin til af reynslumiklu teymi úr netöryggisbransanum. Eins og mikill fjöldi alvarlegra netárása sýnir komast hakkarar í gegnum allar hefðbundnar varnir. Markaðinn hefur því vantað lausn sem stöðvar árásaraðila í rauntíma – áður en þeir geta valdið skaða – og Keystrike svarar þeirri þörf. Auknum óróa í alþjóðamálum fylgja enn stærri öryggisáskoranir og ég hlakka til að takast á við þær með uppbyggingu Keystrike á Íslandi og í Evrópu,“ segir Jóhanna Vigdís enn fremur í tilkynningunni.