Innherji er skoðanadálkur ViðskiptaMoggans.
Fjárfestar um allan heim hafa upplifað mikla óvissu síðustu daga eftir að Bandaríkin, undir forystu Donalds Trump, kynntu nýja tolla á heiminn í einhvers konar verndarstefnu fyrir Bandaríkin. Þetta hefur hrist grunnstoðir alþjóðaviðskipta. Hinn áður óhugsanlegi veruleiki, að samningar og reglur falli einfaldlega úr gildi eða eigi ekki við, virðist orðinn daglegt brauð. Fátt virðist óhugsandi í nýjum veruleika. Fjárfestar fá hvert áfallið á fætur öðru og traust til einhvers stöðugleika er horfið.
Í þessu óvissuástandi er gagnlegt að rifja upp orð Warren Buffett til hluthafa Berkshire Hathaway í miðjum heimsfaraldri, covid-19. Þá, þegar margir töldu heiminn vera á barmi tortímingar, hélt Buffett ró sinni. Hann lagði áherslu á langtímahugsun, varfærni og trú á viðnámsþrótt hagkerfisins. Stormar kæmu og færu, sagði hann, en þeir sem héldu kúrs myndu sjá birtuna færast yfir á ný.
Í upphafi árs seldi Buffett hlutabréf fyrir yfir 330 milljarða dala, forðaðist stórar yfirtökur þrátt fyrir gríðarlegan sjóð og fjárfesti frekar í fyrirtækjum á borð við Occidental Petroleum og SiriusXM sem einbeita sér einkum að Bandaríkjunum.
Þessi skref benda til þess að hann hafi ekki aðeins búist við vaxandi óvissu, heldur einnig undirbúið sig fyrir hana, jafnvel þótt hann hafi ekki endilega vitað nákvæmlega hvað myndi gerast. Hann sá storminn nálgast.
Samsæriskenningar rjúka af stað á þessum óvissutímum og ein er að Buffett hafi gert samning við Trump og þeir séu að veikja markaðinn vísvitandi. Ekkert er haldbært um að Buffett hafi haft einhverja vitneskju um tollastefnu Trumps eða að hann hafi gert einhvern slíkan samning. Buffett hefur að sama skapi árum saman varað við vaxandi verndarstefnu og mögulegum áhrifum hennar. Hefur bent á hættuna á hærra verðlagi, röskun á aðfangakeðjum og hægari hagvexti. Buffett hefur því dregið lærdóm af sögunni, því eins og margir hafa bent á er fátt nýtt undir sólinni.
Buffett virðist hafa lesið rétt í stöðuna; hann sneri flota sínum við áður en stormurinn skall á af krafti og er með hann í vari í vík og bíður rétta augnabliksins. Spurningin er ekki hvort hann snýr aftur, heldur hvenær. Það er nokkuð sem smærri fjárfestar ættu að líta til þegar stormurinn geisar.