Sögulegar hækkanir urðu á hlutabréfamarkaði vestanhafs eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti um tollahlé gagnvart þeim ríkjum sem sýnt hafa Bandaríkjamönnum samningsvilja.
Forsetinn tilkynnti í dag um að 90 daga hlé yrði gert á áformum um hærri tolla sem tóku gildi innan við sólarhring áður og í staðinn myndi hann leggja flatan 10% toll á innflutning vara frá samningsfúsum ríkjum.
Á sama tíma tilkynnti Trump um hækkun tolla á kínverskar vörur í minnst 125% sem tæki gildi nú þegar.
S&P 500-hlutabréfavísitalan hækkaði um 9,5% í dag í stærstu innandagsuppsveiflu hennar síðan árið 2008 en eftir tilkynningu forsetans um hærri tolla hrundi hún um meira en 10% og margir sérfræðingar vöruðu hreinlega við hættu á allsherjar efnahagslægð í Bandaríkjunum og um heim allan.
Áhrifa tollastefnunnar gætti á skuldabréfamarkaði í dag þegar fjárfestar fóru að selja ríkisskuldabréf og sagði Paul Ashworth, yfirmaður efnahagsmála fyrir Norður-Ameríku hjá greiningarfyrirtækinu Capital Economics, að þó Trump hafi getað staðist hrun á hlutabréfamarkaði þá hafi aðeins verið tímaspursmál, eftir að skuldabréfamarkaður fór að veikjast, hvenær forsetinn myndi „pakka saman“.
Asworth sagðist búast við að Trump myndi snúa aftur að áætlun sinni um 10% alhliða tolla, sem hann hafi talað fyrir í kosningabaráttunni í fyrra en varaði að sama skapi við því að það tæki tíma fyrir Bandaríkin og Kína að komast að samkomulagi.
„Það er erfitt að sjá að menn gefi eftir á næstu dögum,“ sagði hann. „En mig grunar að viðræður muni fara fram á endanum.“
Dow Jones-hlutabréfavísitalan rauk upp um meira en 7,8% í dag og Nasdaq-hlutabréfavísitalan sveif upp um meira en 12%.
Fyrirtæki á borð við Nike, sem framleiðir um helming af skóm sínum í Víetnam, hækkaði um 11% og Apple reis um 15%.
Þrátt fyrir hækkun á mörkuðum í dag voru þessar leiðandi vísitölur ennþá lægri en þær voru áður en Trump tilkynnti um tollana í síðustu viku.
Trump hefur látið hafa eftir sér í dag að hann vonist til að ná samkomulagi við Kína og að nú velti hann fyrir sér að veita undanþágur frá tollum til ákveðinna fyrirtækja, eitthvað sem hann hefur ekki talað um í fyrri yfirlýsingum.
„Ég sá í gærkvöldi að fólk var að verða svolítið órólegt,“ sagði Trump og viðurkenndi áhyggjur fólks. Þó gaf hann til kynna staðfestu sína um tolla á lykilgeira eins og bíla, stál og ál og að hann væri að skoða aðrar greinar á borð við lyfjaiðnaðinn.
Nokkrum mínútum eftir að Trump tilkynnti um ákvörðun sína um tollahlé gaf fjárfestingarbankinn Goldman Sachs út greiningarskýrslu þar sem efnahagslægð var spáð í Bandaríkjunum vegna ofurtolla Trumps.
Tveimur klukkustundum síðar sagðist bankinn hverfa aftur til fyrri spár og gerði ráð fyrir lágmarks vexti á árinu með 45% líkum á efnahagslægð.
Milljarðamæringurinn Bill Ackman, forstjóri Pershing Square Capital Management vogunarsjóðsins, sem kallað hafði eftir 90 daga hléi á tollunum, þakkaði forsetanum á samfélagsmiðlum: „Þakka þér fyrir hönd allra Bandaríkjamanna,“ sagði hann.