Alvotech tapaði tæpum 31 milljarði króna, eða 232 milljónum bandaríkjadala, á síðasta ári. Þrátt fyrir töluverðan viðsnúning í sölutekjum.
Heildartekjur félagsins námu tæpum 65 milljörðum króna, eða um 490 milljónum dala, sem er veruleg aukning frá rétt um 12 milljörðum króna, eða 91,4 milljónum dala, árið 2023.
Félagið skuldar nú yfir 141 milljarð króna, eða um 1.068,6 milljónir bandaríkjadala, eftir miklar fjárfestingar í þróun, fasteignum, tækjum og búnaði.
Fram kemur í reikningum Alvotech að skuldir félagsins beri 12,4% meðalvexti.
Félagið á rétt um 7 milljarða í handbæru fé, eða 51,4 milljónir dala. Vert er að nefna að endurgreiðsla lána Alvotech er lág næstu fjögur árin eftir nýlega endurfjármögnun félagsins.
Haraldur Heimisson, hlutabréfamiðlari hjá Arion, segir að það hafi skapast miklar væntingar fyrir uppgjöri Alvotech í ljósi þess hvað aðdragandinn var langur.
„Uppgjörinu var seinkað um mánuð. Sumir væntu stórra frétta, aðrir jafnvel slæmra, en það var greinilega misræmi í væntingastjórnun á milli markaðarins og stjórnenda,“ segir Haraldur.
Hann lýsir því að í grófum dráttum hafi uppgjörið verið þannig að tekjur voru betri en kostnaður meiri en markaðurinn bjóst við. Greinendur hafi orðið fyrir vonbrigðum þar sem fyrirtækið náði ekki alveg þeim markmiðum sem markaðurinn hafði gert ráð fyrir sem minnti á neitun FDA (Lyfjastofnunar Bandaríkjanna) um árið. Þetta hafi skapað neikvætt viðhorf – sérstaklega með hliðsjón af því að árið 2025 lítur út fyrir að valda vonbrigðum miðað við væntanlegan vöxt. Vert er að minna á að félagið er á allt öðrum stað í dag, komið með tvö lyf á markað og fjögur önnur lyf sem fara í sölu á þessu ári ásamt fleiri á komandi árum.
„Við erum í ákveðnu „perfect storm“-ástandi – alþjóðlegir markaðir eru erfiðir, og íslenski markaðurinn hefur sértæk vandamál, m.a. skort á virkum erlendum fjárfestum. Margir af þeim sem eiga í Alvotech eru vísitölusjóðir sem fylgja líftæknivísitölum í Bandaríkjunum eða svokölluðum „Emerging markets“-vísitölum á Íslandi. Félagið hefur lækkað mikið, og líftæknigeirinn í heild hefur átt undir högg að sækja,“ segir Haraldur.
Hann segir að það bæti gráu ofan á svart að óvissa sé um tolla og pólitískt landslag sem getur haft áhrif á útflutning.
Alvotech spáir áframhaldandi vexti á árinu 2025 og gerir ráð fyrir að heildartekjur verði á bilinu 570-670 milljónir bandaríkjadala.
Haraldur segir að hreyfingin í bréfunum hafi fyrir nokkru aðlagað sig afkomuspánni en merki eru um þvingaðar sölur síðustu daga sem hafa ýtt gengi bréfanna undir útboðsgengi.
„Þegar markaðurinn róast og óvissan minnkar munu viðskipti með bréf félagsins verða eðlilegri. Eins og staðan er núna erum við í ástandi á markaði sem jafnvel er verra en það var þegar Úkraínustríðið byrjaði. Allir voru bjartsýnir í byrjun ársins, en síðan hefur þetta þróast í hið gagnstæða,“ segir Haraldur.
Alþjóðlega fjármálafyrirtækið UBS endurskoðaði nýlega verðmat sitt á Alvotech í kjölfar ársuppgjörs félagsins fyrir árið 2024. Samkvæmt frétt Viðskiptablaðsins lækkaði UBS verðmat sitt á Alvotech. Þessi lækkun er aðallega rakin til ytri aðstæðna á mörkuðum og aukinnar samkeppni í líftæknigeiranum, fremur en innri þátta hjá Alvotech sjálfu.
UBS bendir á að samkeppni í framleiðslu á líftæknihliðstæðum (e. biosimilars) hafi aukist, sem hefur leitt til mikils verðstríðs innan greinarinnar. Þrátt fyrir þessa lækkun á verðmati telur UBS að Alvotech hafi enn sterka stöðu á markaði og mikla vaxtarmöguleika til framtíðar.
Haraldur segir greinanda UBS nálgast greininguna á mjög eðlilegan hátt. Stóra spurningin sé samkeppnin í lyfjageiranum og þessar miklu verðlækkanir í líftæknihliðstæðum.
„Lækkunin á hlutabréfunum úr 1.300 í 1.100 tengist ekki uppgjörinu sjálfu heldur ytri aðstæðum. Við höfum séð lækkanir hér heima sem gerast aðeins á nokkurra ára fresti. Það þarf að staldra við og spyrja: Er þetta virkilega svona slæmt? Tollastríðið er vont, en ólíkt covid eða Úkraínu þá fer maður í fermingarveislur og enginn spyr um markaðinn – sem segir sitt. Verðlækkunina núna þarf að setja í stærra samhengi,“ segir Haraldur.
Spurður hvort hann telji að félagið sé vanmetið segist Haraldur telja svo vera.
„Já, félagið hefur farið lengra niður en ég bjóst við. Ég hélt að 1.500 væri sterk lágmarkslína, en væntingar um framtíðarvöxt hafa verið skornar niður. Engu að síður hefur félagið meiri möguleika til vaxtar en flest önnur á markaðnum. En á svona markaði, þar sem öll vaxtarfélög lækka um tugprósentur, þá gerir enginn ráð fyrir svona ástandi. Það er því miður þannig í dag,“ segir Haraldur.
Greinin birtist í heild sinni í ViðskiptaMogganum.