Verðbólga hjaðnaði verulega á árinu 2024 og mældist 4,8% í lok ársins, samanborið við 8,8% að meðaltali á árinu 2023. Þetta kemur fram í nýútgefinni ársskýrslu Seðlabanka Íslands. Meginvextir bankans voru lækkaðir í tvígang á árinu, fyrst í október og síðar í nóvember, og stóðu í 8,5% við árslok.
Í skýrslunni kemur fram að hjöðnunin hafi verið á breiðum grunni. Þar vegur sérstaklega þungt minni verðhækkun á matvöru og þjónustu, sem og breytingar á útreikningi reiknaðrar húsaleigu hjá Hagstofu Íslands.
Krónan styrktist um 4% á árinu gagnvart helstu gjaldmiðlum, og var gengi hennar fremur stöðugt. Aðeins einu sinni þurfti Seðlabankinn að grípa inn í gjaldeyrismarkaðinn þegar bankinn keypti 9,2 milljarða króna í febrúar vegna mikils erlends innflæðis á skuldabréfamarkaði.
Í skýrslunni kemur einnig fram að bankakerfið hafi sýnt mikinn viðnámsþrótt og að rekstur viðskiptabanka hafi verið traustur. Hreinar vaxtatekjur jukust á fyrstu þremur fjórðungum ársins en drógust saman undir lok árs vegna meðal annars minni verðbólgu.
Skuldir heimila og fyrirtækja eru sagðar með þeim lægstu sem sést hafa í áratugi og vanskil afar fátíð. Lausafjárstaða bankanna var sterk í lok árs og eiginfjárhlutföll vel yfir lögboðnum viðmiðum.
Seðlabankinn lagði jafnframt áherslu á netöryggi og rekstraröryggi fjármálainnviða og hóf undirbúning að innlendri, sjálfstæðri smágreiðslulausn.
Samkvæmt skýrslunni einkenndist árið 2024 af aðhaldi í peningamálum, minnkandi verðbólgu og styrkingu fjármálakerfisins.
Með réttu mætti álykta út frá þessum sameiginlegu þáttum: minnkandi verðbólguþrýstingur, fækkun inngripa, lækkandi vextir, og sterkt fjármálakerfi með lága skuldastöðu að tilefni sé til hóflegrar bjartsýni en fram kemur í skýrslunni:
„Viðnámsþróttur viðskiptabankanna var mikill í lok ársins 2024 en sterkt og öflugt bankakerfi skiptir sköpum við að viðhalda starfhæfu fjármálakerfi og varðveita fjármálastöðugleika. Slík staða er mjög mikilvæg nú þar sem óvissa um alþjóðlegar efnahagshorfur hefur aukist á sama tíma og óvissa innanlands hefur minnkað."