Landsbankinn birti í vikunni nýja hagspá sem nær til ársins 2027. Spáin dregur upp mynd af traustum en hægfara bata í efnahagslífinu, þó með fyrirvara um óvissuþætti, einkum á sviði alþjóðaviðskipta.
Gert er ráð fyrir 1,4% hagvexti á þessu ári, sem muni smám saman aukast í 2,3% árið 2027. Vöxturinn byggist einkum á aukinni einkaneyslu, fjárfestingu og vaxandi útflutningi, þar á meðal lyfja- og fiskeldisvöru.
Verðbólgan hefur hjaðnað talsvert frá hámarki en fer hægar niður en vonir stóðu til. Hún mældist 3,8% í mars og er spáð óbreytt við árslok. Gert er ráð fyrir að verðbólgan verði 3% 2027. Þótt stýrivextir lækki úr 7,75% í 5% á tímabilinu verður peningalegt aðhald áfram þétt, þar sem verðbólguvæntingar haldast þrálátar.
Óvissa tengd innflutningstollum Bandaríkjanna varpar skugga á horfurnar en 90 daga frestur hefur verið veittur af öllum ofurtollum, en lönd heimsins fá á sig 10% toll utan Kína sem enn er með 145% toll. Ef verndarstefnan breiðist út gæti það haft áhrif á útflutning og ferðamennsku. Viðskiptajöfnuður verður neikvæður út spátímabilið, þrátt fyrir væntanlegan afgang af vöru- og þjónustujöfnuði.
Greiningardeildin undirstrikar að þótt hagkerfið hafi náð jafnvægi eftir heimsfaraldurinn ráði þróun í alþjóðlegu umhverfi úrslitum næstu ár. Morgunblaðið leitaði til Unu Jónsdóttur aðalhagfræðings Landsbankans fyrir frekara mat á stöðunni:
„Óvissa er mikil um þessar mundir og má segja að hagspáin haldi þar til annað kemur í ljós. Við erum þó nokkuð bjartsýn á horfurnar og spáum auknum hagvexti út spátímann. Það má þó gera ráð fyrir að útflutningsgreinar okkar, sérstaklega ferðaþjónustan, finni mögulega fyrir áhrifum af versnandi efnahagshorfum erlendis og því spáum við nær óbreyttum fjölda ferðamanna til landsins í ár samanborið við síðasta ár. Svo á eftir að koma í ljós hverju fram vindur í alþjóðaviðskiptum og hvort fleiri útflutningsgreinar verði fyrir skakkaföllum.“ mj@mbl.is
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.