Seðlabankinn telur þörf á að styrkja gjaldeyrisvaraforðann og mun bankinn alls kaupa 6 milljónir evra, jafnvirði um 870 milljóna króna, í hverri viku. Þetta var meðal þess sem fram kom í ræðu Seðlabankastjóra á ársfundi bankans í gær.
Þá kom fram að núverandi mat bankans er að neðri mörk forðans ættu ekki að vera undir 120% af því viðmiði.
„Gjaldeyrisforðinn hefur minnkað undanfarin ár og fjármögnun hans tekið stakkaskiptum, einkum eftir gjaldeyrissölu Seðlabankans í COVID-19 faraldrinum og vegna gjaldeyrisþarfar ríkissjóðs," sagði hann í ræðu sinni.
Þá kom fram að í árslok 2024 jafngilti forðinn 118% af forðaviðmiði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Horfur eru á að hann minnki lítillega að öðru óbreyttu á næstu misserum vegna erlendra greiðslna sem Seðlabankinn sinnir fyrir ríkissjóð.
„Því telur Seðlabankinn að styrkja þurfi forðann. Af þeim sökum mun bankinn því hefja regluleg gjaldeyriskaup á innlendum millibankamarkaði á nýjan leik 15. apríl næstkomandi, á 171 árs afmæli frjálsrar verslunar á Íslandi," sagði hann ennfremur í ræðunni.