Heimssýningin í Osaka í Japan verður opnuð á morgun, 13. apríl, og stendur til 13. október í haust. Yfirskrift sýningarinnar, sem fer fram á Yumeshima, 370 hektara manngerðri eyju í Osakaflóa, er í lauslegri íslenskri snörun „Hönnun framtíðarsamfélags fyrir tilveru okkar“ (e. Designing Future Society for our Lives).
Ísland er meðal þátttökuþjóða og deilir 900 fermetra skála með hinum Norðurlandaþjóðunum.
Pétur Þ. Óskarsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu sem hefur umsjón með þátttöku Íslands í góðu samstarfi við utanríkisráðuneytið og sendiráð Íslands í Japan, og Eyjólfur Árni Rafnsson, fulltrúi atvinnulífsins, og Marta Jónsdóttir, fulltrúi Utanríkisráðuneytisins, sem sitja í samnorrænni stjórn skálans, segja í samtali við ViðskiptaMoggann að verkefnið sé skemmtilegt.
„Við fórum til Japans í janúar sl. og kynntum okkur gang mála. Það er búið að byggja heilt þorp á eynni. Þeir koma til með að geta flutt sem samsvarar öllum Íslendingum til og frá svæðinu á 16 klukkustundum,“ segir Eyjólfur Árni um gestaflæðið.
Hann bætir við að allur efniviður í skálann sé japanskur og byggingarstarfsmenn sömuleiðis allir innlendir. „Þetta hefur vakið athygli fjölmiðla, hvað viðskipti Norðurlanda við heimamenn eru mikil. Málið skapar jákvæðni í umhverfinu.“
Pétur segir að búist sé við 28 milljón gestum á sýninguna.
„Við tókum síðast þátt í Sjanghaí í Kína árið 2010. Þá vorum við í eigin skála sem er alltof dýrt og mikið fyrirtæki fyrir okkur,“ segir Pétur en Íslandsstofa sér nú um þátttökuna í fyrsta skipti.
Heimssýningin er haldin á fimm ára fresti. Síðast var hún í Dúbaí í Sameinuðu arabísku furstadæmunum en verður Ríad í Sádi-Arabíu árið 2030.
Pétur segir að eitt helsta markmiðið með þátttökunni sé að efla viðskiptasambönd í Japan. „Markmiðið er að auka útflutning til landsins, auka þekkingu á Norðurlöndum og styrkja samvinnu og tengsl Norðurlanda og Japans.“
Pétur segir að í skálanum verði m.a. fullbúinn ráðstefnusalur, fundarsalir og veitingasalur.
Um heimssýningar almennt segir Pétur aðspurður að mjög eftirsótt sé að halda sýningarnar sem draga aðallega að sér heimamenn og gesti frá nærliggjandi ríkjum.
„Japanir eru að leggja mikið í þetta,“ segir Eyjólfur. „Þeir vilja búa til tengsl og aukin utanríkisviðskipti.“
Eyjólfur segir að norræni skálinn hafi verið sá þriðji sem fékk fullnaðarsamþykki yfirvalda og hafi verið einn af örfáum sem kláruðust á undan áætlun. „Það er búið að tilnefna skálann til hönnunarverðlauna í hönnunartímaritinu Wallpaper.“
Marta segir aðspurð að mikil áhersla sé á sjálfbærni á svæðinu. Því sé þegar búið að ákveða að flytja skálann að sýningu lokinni og endurnýta hann annars staðar í Japan sem samfélagsmiðstöð.
Ýmislegt verður um að vera í skálanum. „Við munum flytja út hóp listamanna, tónlistarmenn og hönnuði. Við verðum einnig með „Taste of Iceland“-uppákomu í stíl við þá sem við höfum haldið í landkynningum í Bandaríkjunum síðastliðin 25 ár.“
Taste of Iceland er kynning á íslenskri menningu, mat og öllu því besta sem Ísland hefur upp á að bjóða, segir Pétur. „Markmiðið er að vekja áhuga fjölmiðla á Íslandi.“
Hver norrænu þjóðanna verður með svokallaðan þjóðardag. Dagur Íslands verður 29. maí en þá mun Halla Tómasdóttir forseti Íslands heimsækja sýninguna.
„Það verða viðburðir allan þann dag, en Taste of Iceland byrjar þriðjudaginn 27. maí í Tókýó,“ segir Pétur.
Um listafólkið segir Pétur að horft hafi verið til listamanna með ákveðna fótfestu í Japan. „Einn tónlistarmannanna, Ásgeir Trausti, nýtur nokkurrar hylli í landinu. Það sama má segja um rithöfundinn og teiknarann Rán Flygenring. Það er til dæmis nýbúið að gefa út bók hennar um Vigdísi Finnbogadóttur fyrrverandi forseta á japönsku.“
Pétur bætir við að val á listamönnum hafi verið unnið með tónlistar-, bókmennta-, hönnunar- og myndlistarmiðstöð en sett verður upp myndlistarsýning með verkum átta íslenskra listamanna.
Fyrsta september verður norrænn jafnréttisdagur. „Það er mjög mikill áhugi á þeim degi og meiri en við bjuggumst við. Japanir hafa mikinn áhuga á árangri Íslendinga í jafnréttismálum en Ísland fer fyrir samnorrænum viðburði á jafnréttisdeginum,“ segir Pétur.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.