Óskar Sveinn Friðriksson, forstjóri færeyska skipafélagsins Smyril Line Cargo Ísland, segir ný skip sem væntanleg eru til landsins muni breyta ýmsu fyrir félagið. „Við erum í dag með þrjú skip í rekstri auk Norrænu. Nýju skipin, sem eru svokölluð ekjuskip og bera helmingi meira magn en núverandi skip, eyða 60% minni orku og verða tilbúin fyrir grænt eldsneyti eins og e-metanól. Þetta er stór fjárfesting. Þau eru byggð í Kína og munu leysa af M/V Akranes og og M/V Glyvursnes. Áætlaður afhendingartími er um mitt næsta ár 2026. Skipin eru 190 metrar á lengd og verða sennilega lengstu vöruflutningaskip í föstum áætlunum til Íslands.“
Óskar segir að rekstur fyrirtækisins hafi gengið ágætlega síðastliðin tvö ár. „En við höfum enn ekki náð afkomumarkmiði okkar. Áætlun í ár gerir ráð fyrir viðunandi afkomu. Við höfum skoðað alla innviði félagsins, velt við hverjum einasta steini, náð fram sparnaði, sótt inn á nýja markaði og aukið tekjur. Við erum að innleiða ISO 9001-, 14001- og 45001-gæðavottun og höfum sett okkur sjálfbær þróunarmarkmið í samræmi við þróunarmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Við erum fyrsta flutningafyrirtækið á Íslandi sem innleiðir ISO-gæðakerfi.“
Eins og fyrr sagði gengur rekstrarmódelið hjá Smyril Line Ísland út á hraða. „Við siglum vikulega fram og til baka til Evrópu, til Hollands eða Danmerkur. Vegna hraðans, sem er mun meiri en hjá samkeppnisaðilunum, erum við með stóran hluta af útflutningi á laxi og ferskum fiski frá landinu, ásamt miklu af sérvöru í innflutningi. Við flytjum einnig inn stóran hluta af öllum lyfjum til Íslands. Þau eru komin í skip í Danmörku á föstudegi og afhent hér á mánudegi.“
Óskar segir að skip félagsins geti siglt á allt að 22 hnúta hraða. Gámaskip sigli til samanburðar á 15-18 hnútum.
Spurður um annað sem er öðruvísi hjá þeim en hjá samkeppnisaðilunum segir Óskar að yfirbygging sé minni. „Starfsmenn eru samtals 51 – bílstjórar, starfsmenn í Þorlákshöfn, á skrifstofunni í Reykjavík og á Seyðisfirði.“
Starfsmönnum hefur ekki fjölgað mikið þrátt fyrir 20% aukningu í umsvifum í flutningum. „Við erum að reyna að einfalda kerfið þannig að við getum unnið þetta magn með sömu starfsmönnum. Einnig höfum við innleitt gervigreindarferla og bindum miklar vonir við sjálfvirknivæðingu innanhússferla. Ég hef sagt í gríni við fjármálastjórann að innan fimm ára verði gervigreindin búin að taka yfir fjármálastjórn félagsins og hann verði því óþarfur,“ segir Óskar og hlær.
Þá segir Óskar, sem kom til Smyril Line Íslands eftir tuttugu ára starf hjá Eimskip, að félagið sé miklu sveigjanlegra en keppinautarnir. „Við erum mun nær viðskiptavinunum. Allt verður að gerast hratt hjá okkur. Þó að ég sé á kafi í Excel-skjölunum tek ég líka þátt í sölunni og get auðveldlega hoppað á lyftara í Þorlákshöfn ef þörf krefur.“
Hann segir ákvarðanatöku ganga hratt og milliliðalaust fyrir sig. „Við ætlum til dæmis að hefja siglingar til Vestmannaeyja í nóvember, þegar höfnin þar verður tilbúin með aðstöðu fyrir okkur. Ákvörðun um það var bara tekin hér og auðvitað í samráði við Vestmannaeyjahöfn. Það þarf ekki alltaf endalausa fundi. Vestmannaeyjar eru líka í leiðinni fyrir okkur og þetta tefur okkur um kannski tvo tíma. Það eru vaxtarmöguleikar fyrir okkur í Eyjum.“
En af hverju að stoppa í Vestmannaeyjum?
„Laxeldisfyrirtækið Laxey ætlar að framleiða 800 tonn í ár og 4.200 tonn á næsta ári. Vestmannaeyjar eru mjög stór verstöð og stækkandi markaður. Við vinnum mikið fyrir Vinnslustöðina, Ísfélagið og aðra í Eyjum bæði í inn- og útflutningi. Í dag er aðeins einn útskipunardagur beint frá Vestmannaeyjum til Evrópu og Herjólfsferjan er allt of lítil og tekur fáa flutningavagna. Við ætlum okkur að koma við í Eyjum á miðvikudagskvöldi. Það gerir okkur kleift að afhenda og dreifa fiski á laugardagskvöldi í Hollandi. Við náum mörkuðum eins og Mercadona í Madríd á sunnudagskvöldi og/eða getum afhent fisk með flugi til Los Angeles á sunnudagskvöldi í gegnum Schiphol-flugvöllinn í Amsterdam. Einnig verður möguleiki á að umlesta vögnum í Færeyjum og afhenda í Danmörku á sunnudegi. Það sama á við um innflutning til Eyja. Við getum lestað í Rotterdam á laugardegi og afhent á miðvikudagskvöldi í Vestmannaeyjum.“
Óskar segir að heilt yfir séu þau hjá Smyril Line Ísland nokkuð jákvæð fyrir framtíðinni. „Það er mikill hugur í okkar frábæra unga starfsfólki. Við erum fjölskylda með skýr markmið og stefnu,“ segir Óskar að lokum.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.