Bandaríska ríkisstjórnin hefur sett sér það markmið að gera samninga um tollamál við 90 lönd á komandi 90 dögum. Peter Navarro, viðskiptaráðgjafi Hvíta hússins, greindi frá þessu í viðtali við Fox á föstudag og lét fylgja með að þetta ætti að vera vel gerlegt. Navarro sagði jafnframt að Donald Trump myndi ráða för í samningaviðræðunum: „Ekkert verður gert án þess að hann komi náið að málum.“
Eins og fjölmiðlar hafa þegar greint frá ákvað Donald Trump síðastliðinn miðvikudag að slá á frest þeirri miklu hækkun tolla sem hann kynnti til sögunnar fyrr í þessum mánuði. Mun Trump láta nægja að leggja á 10% viðbótartoll á allan innflutning næstu 90 dagana, nema í tilviki Kína sem fær á sig 125% toll til viðbótar við þá tolla sem þegar voru í gildi. Trump ákvað þó um helgina að undanskilja snjallsíma, tölvur og tiltekna flokka raftækja og tölvuíhluta. Ber allur annar kínverskur varningur nú að lágmarki 145% toll.
Segja bandarísk stjórnvöld að fulltrúar ríkja um allan heim hafi farið þess á leit við Hvíta húsið að fá að semja um lægri tolla. Eru samt skiptar skoðanir um hvort það sé raunhæft að bandarísk stjórnvöld nái að ljúka við annan eins fjölda samninga á svo skömmum tíma en alla jafna tekur það mörg misseri og ár fyrir þjóðir að gera fríverslunarsamninga sín á milli. Þannig tók það tvö ár að ljúka gerð fríverslunarsamnings sem Bandaríkin, Kanada og Mexíkó undirrituðu árið 2018, í síðustu forsetatíð Trumps. Reuters hefur eftir sérfræðingum að líklega muni ríkisstjórn Trumps þurfa að forgangsraða þeim þjóðum sem samið verður við og framlengja 90 daga frestinn þegar hann rennur út. Þeir embættismenn sem Trump hefur þegar skipað hafi nú þegar nóg á sinni könnu þó að fríverslunarviðræður bætist ekki við, auk þess að enn eigi eftir að manna margar mikilvægar stöður í stjórnsýslunni og er í mörgum tilvikum um að ræða skipanir sem bandaríska þingið þarf að samþykkja. Gagnrýnendur hafa jafnframt bent á að meðlimir ríkisstjórnarinnar hafi orðið margsaga um hvers konar samningum bandarísk stjórnvöld séu á höttunum eftir. Þá er lítið vitað um hvaða þjóðir Bandaríkin vilja setja fremst í röðina en þó hefur Hvíta húsið látið í það skína að nánustu bandamenn Bandaríkjanna muni njóta forgangs.
Það gæti hugsast að Trump og fulltrúar hans ætli að fara þá leið að gera mjög einfalda fríverslunarsamninga, og jafnvel að þeir hugsi sér að nota gervigreind til að létta sér verkið. Skýrist lengd hefðbundinna fríverslunarviðræðna einmitt af því að fríverslunarsamningar innihalda iðulega flókin undanþágu- og túlkunarákvæði og hefur samningagerðin kallað á mikla yfirlegu og útreikninga áður en samningsaðilar vita hvar þeir standa. Að gera mjög einfalda, skýra og víðtæka samninga, og létta verkið með notkun gervigreindar, væri mjög í anda þess hagræðingarverkefnis sem Elon Musk hefur leitt frá því Trump komst til valda, og væri líka í samræmi við þá stefnu Trumps að einfalda bandaríska regluverkið.
Í umfjöllun CNN um málið segir að sú verðþróun sem sést hefur á mörkuðum undanfarna daga sýni að fáir vænti þess að 90 fríverslunarsamningar verði í höfn innan þess tímaramma sem Hvíta húsið hefur sett sér.
Meðal annars hefur heimsmarkaðsverð á olíu verið á niðurleið og er það rakið til þess að markaðurinn vænti samdráttar í flugsamgöngum og skipaflutningum vegna minnkandi alþjóðaviðskipta, sem síðan dragi úr eftirspurn eftir olíu.
Greinin birtist upphaflega í Morgunblaðinu 14. apríl.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.