Stjórnvöld áforma að 45% nýrra íbúða í Reykjavík fari í niðurgreidd húsnæðisúrræði utan almenns markaðar á næstu árum. Viðskiptaráð hefur gefið út úttekt á stefnunni og segir þar meðal annars að stefnan feli í sér ógagnsæja meðgjöf til húsnæðisfélaga á vegum þriðja aðila, áhættutöku fyrir ríkissjóð og framboð á skjön við þarfir íbúa. Ný stefna sé tímabær með jafnræði og ráðdeild að leiðarljósi.
Ráðið bendir á að á næstu árum muni helmingur nýrra íbúða á höfuðborgarsvæðinu rísa í Reykjavík. Vegna húsnæðisstefnu stjórnvalda muni stór hluti þessara íbúða ekki koma inn á almennan markað.
„Af íbúðum sem fyrirhugað er að reistar verði í Reykjavík næstu tíu árin fara einungis 55% inn á almennan húsnæðismarkað (mynd 1). Hin 45% fara í niðurgreidd húsnæðisúrræði, nánar tiltekið húsnæðisfélög, svokallað hagkvæmt og grænt húsnæði og félagslegt húsnæði,“ segir í úttektinni.
Þá segir jafnframt að það skjóti skökku við að forsvarsmönnum þeirra aðila sem stýra stærstu húsnæðisfélögum landsins hafi orðið tíðrætt um að þau séu „óhagnaðardrifin“ eða „lítt hagnaðardrifin“. Bent er á að í þeirri orðræðu hafi þeir ekki getið þess fjárhagslega ávinnings sem ASÍ og BSRB hafa af því að starfrækja umrædd félög. Þar sem aðild er skilyrði fyrir úthlutun íbúða gerir það aðild að stéttarfélagi að álitlegri kosti en ella.
„Stefna stjórnvalda í Reykjavík er að auka vægi leigumarkaðar með því að ráðstafa þriðjungi nýrra íbúða í leigu hjá húsnæðisfélögum. Þessi áform ríma illa við vilja íbúa höfuðborgarsvæðisins, sér í lagi þeirra sem eru á leigumarkaði nú þegar,“ segir í úttektinni.
Fram kemur að af þeim 20% á húsnæðismarkaði sem leigja vilji einungis 8% vera á leigumarkaði. Þá hafi hlutfall þeirra sem eru sjálfviljugir á leigumarkaði farið lækkandi undanfarin fjögur ár. Bent er á að einnig sé ánægja meðal leigjenda minni en þeirra sem búa í eigin húsnæði, en hlutfall þeirra sem eru óánægðir með sinn húsakost sé fjórfalt hærra meðal þeirra sem leigja samanborið við þá sem eiga.
Þá segir að hlutfallsleg skipting á milli húsnæðis til leigu og eigu verði hagkvæmust ef hún er ákvörðuð á frjálsum markaði í stað þess að vera handstýrt af stjórnvöldum. Ef hið opinbera vilji stuðla að auknu framboði leiguhúsnæðis væri bæði árangursríkast og hagkvæmast að aflétta íþyngjandi kvöðum sem lagðar hafa verið á leigusala á síðustu árum og hafa dregið úr framboði leiguhúsnæðis.
„Að framangreindu virtu er ljóst að húsnæðisstefna stjórnvalda skýtur skökku við. Með henni á að veita 69 milljarða króna niðurgreiðslu til húsnæðisuppbyggingar utan almenna markaðarins. Niðurgreiðslan fer að mestu til húsnæðisfélaga, sem fá nær helmingsafslátt af stofnkostnaði íbúða í formi opinberra niðurgreiðslna,“ segir í úttektinni.
Viðskiptaráð leggur til þrjár tillögur. Í fyrsta lagi að byggingarréttum verði úthlutað á markaðsvirði, í öðru lagi að veitingu stofnframlaga verði hætt og í þriðja lagi að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hætti að veita lán.
Þá segir að það sé mat ráðsins að stefna stjórnvalda á húsnæðismarkaði sé byggð á veikum grunni. Hún samrýmist illa jafnræðissjónarmiðum með því að ráðstafa stórum hluta nýrra íbúða í niðurgreidd úrræði. Þá veltir hún miklum kostnaði niðurgreiðslna og áhættu yfir á skattgreiðendur.
„Hún eykur loks óhagkvæmni og kostnað íbúa. Stjórnvöld ættu að vinda ofan af þessari stefnu, enda þjónar húsnæðismarkaðurinn best hagsmunum almennings þegar jafnræði, gagnsæi og valfrelsi ráða för,“ segir í greiningunni.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.