Innherji er skoðanadálkur ViðskiptaMoggans.
Ríkisstjórnin hefur lagt fram frumvarp til fjáraukalaga og óskað eftir heimild Alþingis til útgáfu ríkisskuldabréfa að fjárhæð 510 milljarðar króna. Tilgangurinn er að ljúka uppgjöri við kröfuhafa Íbúðalánasjóðs (ÍL-sjóðs) og slíta starfsemi hans endanlega.
Um er að ræða eitt stærsta einstaka tap ríkissjóðs í seinni tíð, 168 milljarða króna sem falla á almenning vegna ríkisábyrgðar á skuldum sjóðsins.
Skuldir ÍL-sjóðs nema 674 milljörðum, þar af er 651 milljarður vegna HFF-skuldabréfa sem gefin voru út árið 2004. Eignir sjóðsins eru metnar á 506 milljarða. Tap upp á 168 milljarða er því staðreynd og það á sér hvorki rætur í náttúruhamförum né utanaðkomandi áföllum, heldur í slæmri stjórnsýslu, áhættusæknum ákvörðunum, pólitískri vanrækslu og dýrkun einstakra starfsmanna sjóðsins á erlendum bankamönnum.
Fram kemur í rannsóknarskýrslu Alþingis frá árinu 2013 að ákveðið hafi verið að ráðast í stórt skiptiútboð húsbréfa í stað dreifðra aðgerða á árinu 2004. Deutsche Bank, ráðgjafi ÍL-sjóðs, hafði fjárhagslega hagsmuni af umfanginu og fékk 748 milljónir í þóknun (um 2,1 milljarðar á verðlagi dagsins í dag) sem byggðist á stærð útboðsins. Skiptin leiddu til þess að sjóðurinn lengdi meðaltíma skuldabréfa sinna, þvert á eðlilega áhættustýringu. Með því gerðist hann berskjaldaður fyrir uppgreiðslum sem gátu valdið honum stórtapi.
Viðvaranir voru hunsaðar, forsendur útboðsins óljósar og ótrúlega margir í ábyrgðarstöðum brugðust hlutverki sínu. Ofan á allt annað var gerð reiknivilla sem kostaði sjóðinn 1,5 milljarða (um 4,2 milljarðar á verðlagi 2025). Þannig fór opinber stofnun í flókið fjármálavafstur sem hún hvorki skildi né réði við, með almannafé að veði.
Eða eins og kemur fram í rannsóknarskýrslunni að yfirmaður áhættustýringar sjóðsins og helsti ráðgjafi stjórnar hafi hvorki haft skilning á þeim útreikningum sem þurfti til né haft þá þekkingu á sviði áhættustýringar sem nauðsynleg var til að átta sig á upplýsingum sem komu frá ráðgjöfum.
Tap skattgreiðenda er nú staðfest. Samningar við lífeyrissjóði milda höggið, en gera það ekki réttlátara. Það er ekki ásættanlegt að ráðamenn einblíni einungis á að tapið hefði getað verið svo miklu meira og því ættu allir að vera sáttir við niðurstöðuna.
Hér er því slegið föstu að það sé engin raunveruleg sátt meðal skattgreiðenda við að fá þennan reikning.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.