Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir í samtali við ViðskiptaMoggann að áhrifin af óróleika á alþjóðamörkuðum vegna nýrrar tollastefnu Bandaríkjastjórnar séu óviss. Ef áhrifin verða á þann veg að draga úr útflutningi frá landinu og lækka hrávöruverð mun það leiða til kólnunar í hagkerfinu og lægri verðbólgu, að hans sögn. „Það eitt og sér ætti að leiða til hraðari lækkunar stýrivaxta en ella. Á móti er líka hægt að sjá fyrir sér hærra verð á mörgum flóknum samsetningarvörum, eins og farsímum, tölvum og bifreiðum, vegna hærri tolla sem munu auka verðbólgu,“ segir Ásgeir.
Hann segir að þetta muni líka taka nokkra mánuði að skýrast og ekkert virðist gefið. Ýmsir snarpir vindar blási nú um heiminn og staðan virðist breytast frá viku til viku.
Næsti vaxtaákvörðunardagur bankans er 21. maí næstkomandi. Verðbólga mælist nú 3,8% og meginvextir bankans eru 7,75%.
Ásgeir bendir á að fyrstu áhrifin á verðbólgu gætu verið jákvæð. Olíuverð hafi farið lækkandi og mögulega lækki verð á ýmsum vörum frá Asíu á næstunni þar sem þessi lönd muni leita eftir nýjum mörkuðum með verðlækkunum ef Ameríkumarkaður er lokaður. Það myndi skila sér í lægri verðbólgu á Íslandi. „Ef við sjáum verðhjöðnun, lægra verð á olíu og lægra verð á innfluttum vörum, sem gætu verið fyrstu áhrifin af þessum óstöðugleika, þá gæti það leitt til þess að við sjáum verðbólgu ganga hraðar niður í markmið og að stýrivextir gætu fylgt á eftir. Á sama tíma gætu ýmsar flóknar tæknivörur hækkað vegna tollanna, eins og frá bandarískum tæknifyrirtækjum. Almennt séð trufla tollar framleiðslukeðjur og valda kostnaði og óskilvirkni. Þetta tekur einhvern tíma að koma fram,“ segir Ásgeir.
„Ef horfur versna í útflutningi mun það vitaskuld draga úr hagvexti,“ segir Ásgeir. „Á sama tíma eru engin merki enn um að óróinn komi niður á gengi krónunnar. Það er frekar öfugt.“
Ástæðan fyrir því er mögulega sú, að sögn Ásgeirs, að fjármagn leitar nú út úr Bandaríkjunum og finnur sér heimili annars staðar, m.a. á Íslandi.
Ásgeir segir almennt um stöðuna á mörkuðum að verið sé að hrista upp í mörgum hlutum sem taldir hafa verið sjálfsagðir á síðustu áratugum og óvíst sé hvernig það muni koma fram í heimshagkerfinu. „Viðskipti eru alltaf tvíhliða. Kaupum á vöru og þjónustu fylgir alltaf samsvarandi fjármagnsfærsla. Sé vöruviðskiptum breytt með tollum kemur það einnig fram með breytingum á fjárstraumum sem meðal annars hafa áhrif á gengi gjaldmiðla og kaupkröfu skuldabréfa. Bandaríkin hafa verið með bæði mikinn fjárlagahalla og viðskiptahalla nú um nokkurt skeið sem hefur verið fjármagnaður með útgáfu bæði peninga og skuldabréfa til heimsins. Ríkisskuldir landsins nema nú einni landsframleiðslu og allar breytingar á vaxtakjörum skuldabréfa hafa því mikil áhrif. Þetta er hinn nýi veruleiki Bandaríkjanna.“
Eins og Ásgeir bendir á hefur bandaríkjadalur verið svokölluð forðamynt heimsins. „Allur heimurinn hefur tekið við bandarískum ríkisskuldabréfum og útgefnum seðlum til að geyma auð. Við erum til dæmis með gjaldeyrisvaraforða okkar að hálfu leyti í dollara. Það sama á við um Asíu. Þessi mikli viðskiptaafgangur sem Asía hefur haft við Bandaríkin hefur verið notaður til að fjármagna fjárlagahalla Bandaríkjanna enda hafa þessar þjóðir viljað safna upp öruggum eignum. Það bendir margt til þess að staðan sé að fara að breytast og vægi dalsins sem forðamyntar að breytast, sem að öðru óbreyttu myndi auka fjármögnunarkostnað Bandaríkjanna. Síðustu daga höfum við séð innflæði peninga í svissneskan franka, japanskt jen og evru. Menn leita öryggis annars staðar en í Bandaríkjunum. Ég er ekki að segja að krónan nálgist það að geta talist forðamynt en mögulega eru fjárfestar að leita að öðrum tækifærum, meðal annars hér á landi.“
Það mun taka töluverðan tíma fyrir rykið að setjast og nýjar útlínur að koma í ljós í heimshagkerfinu, að sögn Ásgeirs. „En svo virðist sem hið mjúka vald sem Bandaríkin hafa hingað til haft muni gefa eftir. Það eru ekki góðar fréttir fyrir okkur Íslendinga sem höfum notið mjög góðs af þeim,“ segir Ásgeir. Þar á hann m.a. við það hvernig Bandaríkin hafa hýst, fjármagnað og haft ítök í stórum alþjóðastofnunum sem landið átti frumkvæði að því að stofna eftir síðari heimsstyrjöldina, stofnunum eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, Sameinuðu þjóðunum og Alþjóðaviðskiptastofnuninni.
Um bein áhrif tollanna á Ísland segir Ásgeir að það hefði veruleg áhrif á Ísland ef tollar yrðu lagðir á íslenskan útflutning eins og sjávarafurðir, þó að Bandaríkin séu ekki eins mikilvæg sem viðskiptaland og áður fyrr.
„Þar munar mestu um að sjávarútvegurinn hefur verið meðvitaður um að dreifa áhættu með því að selja á mörgum markaðssvæðum.“
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.