Pétur Óskarsson, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, segir að þrátt fyrir að fjöldi Kínverja sé enn undir því sem hann var fyrir heimsfaraldur bendi þróunin til þess að áhugi þeirra á Íslandi sé að aukast á ný.
„Það heyrist æ oftar að von sé á beinu flugi frá Kína til Íslands næstu misserin. Ef það gerist mun það líklega gjörbreyta stöðunni,“ segir Pétur.
Spurður hvort samsetning ferðamanna hafi breyst að undanförnu svarar Pétur því játandi.
„Bandaríkjamönnum og Bretum virðist hafa fækkað verulega frá fyrra ári – um 11% og 47% í mars, með fyrirvara um að tölur Ferðamálastofu séu réttar. Þó að skekkja geti leynst í tölum Ferðamálastofu benda ýmsar aðrar vísbendingar einnig til þess að Ísland sé að tapa í samkeppninni við lönd eins og Noreg og Finnland,“ segir Pétur og bætir við að það heyrist meðal annars beint frá félagsmönnum. Bretar hafi verið mikilvægustu gestir okkar yfir vetrartímann og í raun haldið uppi hótelnýtingu á höfuðborgarsvæðinu á þeim árstíma.
„Hins vegar hafa um 38% af öllum útflutningstekjum greinarinnar komið frá bandarískum gestum okkar. Ekki er sjáanleg aukning í fjölda kínverskra ferðamanna í gögnum Ferðamálastofu – þeim fækkaði um 6% í mars,“ segir Pétur.
Spurður um horfurnar í ferðaþjónustunni segir Pétur þær vera óvissar og sveiflukenndar.
„Heildarfjöldi erlendra ferðamanna virðist hafa dregist saman milli ára á fyrsta ársfjórðungi 2025 og það eru svo sannarlega blikur á lofti í ljósi sviptinganna í alþjóðaviðskiptum og óljóst hver áhrif tollastríðsins verða á íslenska ferðaþjónustu. Á sama tíma hefur dregið úr áhuga á Íslandi á lykilmörkuðum eins og Bandaríkjunum og Bretlandi sem er mjög alvarlegt. Það má hins vegar ekki gleymast að það eru líka ýmis tækifæri falin í óvissunni,“ segir Pétur.
Hann bendir á að Ísland sem áfangastaður þurfi núna að grípa tækifærið til dæmis með aukinni markvissri neytendamarkaðssetningu og sækja þannig þá ferðamenn sem hafi þegar eða komi til með að breyta ferðalögum sínum í ljósi tollastríðsins.
„Við verðum einfaldlega að finna leiðir til að snúa vörn í sókn, sérstaklega á Bretlandsmarkaði og í Bandaríkjunum,“ segir Pétur.
Hann segir jafnframt að heilt yfir sé bókunarstaðan fram á haustið áþekk því sem hún var í fyrra, en stærra hlutfall bókana komi nú með styttri fyrirvara en áður, sem geri rekstraráætlanir óvissari. Bókanir í gegnum netbókunarveitur (OTA) hafi aukist miðað við sama tíma í fyrra, en beinar bókanir og bókanir frá ferðaheildsölum hafi dregist saman.
Pétur bendir á að greinin standi frammi fyrir háu raungengi krónunnar, auknum kostnaði og óvissu um boðuð auðlindagjöld. Á sama tíma hafi dregið verulega úr opinberri markaðssetningu Íslands, sem bitni nú þegar á markaðshlutdeild okkar. Þrátt fyrir allt sé ferðaþjónustan enn ein helsta stoð hagkerfisins – árið 2024 skilaði hún 32% af útflutningstekjum þjóðarbúsins og um 200 milljörðum í skatttekjur til ríkis og sveitarfélaga.
„Við teljum að það sé mikilvægt nú að ríkisstjórnin fresti hugmyndum um auknar álögur á greinina í ljósi stöðunnar og fari ekki í fyrirvaralausar breytingar á þeim sköttum og gjöldum sem fyrir eru eins og margoft hefur verið gert. Nú hangir t.d. möguleiki á kílómetragjaldi yfir bílaleigum á miðju sumri, sem er ólíðandi framkvæmd og getur rýrt samkeppnisstöðu áfangastaðarins enn frekar. Best væri að ríkisstjórnin myndi nú frekar snúa vörn í sókn með ferðaþjónustunni og fjárfesta þannig að strax verði farið í aukna almenna markaðssetningu á Íslandi sem áfangastað. Hvað það varðar ættum við einmitt að taka Noreg og Finnland okkur til fyrirmyndar, en þar koma stjórnvöld myndarlega að markaðssetningu landanna, með frábærum árangri,“ segir Pétur.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.