Elísabet Austmann og Bergsveinn Guðmundsson hafa tekið við nýjum stöðum markaðsstjóra hjá Ölgerðinni. Elísabet tekur við stöðu markaðsstjóra óáfengra drykkja og Bergsveinn stöðu markaðsstjóra áfengra drykkja. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ölgerðinni.
Elísabet er menntaður alþjóðamarkaðsfræðingur með MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík. Hún kemur til Ölgerðarinnar frá Högum þar sem hún starfaði sem forstöðumaður nýsköpunar- og markaðsmála. Elísabet hefur áratuga reynslu af bæði markaðsmálum og vörumerkjastjórnun á innlendum og erlendum mörkuðum.
Elísabet steig sín fyrstu skref í markaðsmálum þegar hún starfaði á árum áður hjá Ölgerðinni og segir í tilkynningunni það vera frábært að vera komin aftur.
Bergsveinn er með meistaragráðu í alþjóðlegum markaðsmálum og stjórnun frá Copenhagen Business School. Hann hefur síðastliðin sex ár starfað sem vörumerkjastjóri áfengra drykkja hjá Ölgerðinni en þar áður starfaði hann sem sérfræðingur í markaðsmálum hjá Íslandsbanka.
Óli Rúnar Jónsson, framkvæmdastjóri markaðssviðs Ölgerðarinnar, segir í tilkynningunni að Bergsveinn hafi verið lykilmaður í gjöfulli vegferð margra af sterkustu vörumerkjum Ölgerðarinnar síðustu ár.
Hann segist einnig vera ákaflega glaður að Elísabet skuli vera snúin heim til Ölgerðarinnar.
Með þessum ráðningum telur Óli að Ölgerðin skerpi sókn sína enn frekar og leggi grunn að frekari vexti til framtíðar.