Í gær var kauphallarbjöllu bandarísku Nasdaq-kauphallarinnar í New York hringt í tilefni af því að nýr íslenskur kauphallarsjóður fyrir íslenska hagkerfið, GlacierShares Nasdaq Iceland ETF, var tekinn til viðskipta í Bandaríkjunum.
ETF stendur fyrir Exchange Traded Fund, eða sjóður skráður í kauphöll.
Að baki sjóðnum stendur íslenska fyrirtækið GlacierShares ehf., sem er í rekstri bandaríska ráðgjafarfyrirtækisins New Iceland Advisors. Félagið hefur það að markmiði að efla viðskiptatengsl á milli Íslands og Bandaríkjanna. Að baki báðum félögum standa Halldór Þ. Þorsteinsson framkvæmdastjóri, Helgi Frímannsson og Bandaríkjamaðurinn John Heath Cardie.
Halldór og Helgi segja í samtali við ViðskiptaMoggann að undirbúningur hafi staðið í um tvö og hálft ár. „Þetta hefur verið langhlaup,“ segir Helgi. „En nú er Ísland komið á stóra sviðið. Við erum að veifa íslenska fánanum.“
Spurður hvernig hugmyndin hafi fæðst segist Halldór, sem er lögmaður, hafa aðstoðað marga erlenda viðskiptavini í gegnum tíðina í tengslum við viðskipti á Íslandi. Árið 2018 hafi Cardie haft samband. Síðan þá hafi Halldór unnið ýmis verkefni fyrir hann hér á landi. „Til að gera langa sögu stutta þá langaði okkur að byggja öfluga brú á milli íslenska fjármálamarkaðarins og þess bandaríska,“ útskýrir Halldór.
Hann segir að þegar þeir Heath hafi skoðað málið nánar hafi þeir séð að til eru landssjóðir (e. Single Country ETFs) fyrir nær öll þróuð lönd í heiminum nema Ísland. Með landssjóði er átt við að hægt er að kaupa „hlut“ í efnahagskerfi landanna í erlendri kauphöll.
„Við ákváðum að skoða betur hvað þyrfti til að koma svona sjóði á laggirnar. Þannig fæddist hugmyndin að því að gera íslenskan landssjóð í Bandaríkjunum.“
Eins og fyrr sagði tók nú við mikil vinna yfir tveggja og hálfs árs tímabil og fundarhöld með ýmsum aðilum í Bandaríkjunum. „Við funduðum eiginlega með flestum ef ekki öllum sjóðastýringarfélögum í New York sem sérhæfa sig í ETF. Á endanum völdum við Teucrium Trading-sjóðinn sem samstarfsaðila vestanhafs.“
Eins og Halldór útskýrir var einnig þörf fyrir þekkingu á íslenska markaðnum. Því var Helgi ráðinn til félagsins en hann býr yfir 20 ára reynslu úr Arion banka. „Ég hef í gegnum tíðina mikið verið að aðstoða erlenda fjárfesta sem hafa viljað fjárfesta á Íslandi.“
Halldór og Helgi segja að almennt sé mikill áhugi meðal bandarískra fjárfesta á Íslandi og þá einkum á orkugeiranum. „Vandamálið er að það er tiltölulega flókið að stofna til viðskipta hér á landi fyrir útlendinga. Það þarf að sækja um kennitölu og skila margvíslegum gögnum. Þegar ég heyrði af þessu verkefni hjá New Iceland Advisors fannst mér það stórsnjallt. Með því að skrá svona sjóð í Bandaríkjunum má segja að vera sé að einfalda aðgengi að íslenska markaðnum til muna,“ segir Helgi.
Bandaríski markaðurinn er og verður mikilvægasti markaðurinn fyrir íslensk fyrirtæki sem starfa alþjóðlega, að sögn Helga. „Hann er stærsti og mikilvægasti hlutabréfamarkaður í heimi þar sem öll stærstu fyrirtækin eru skráð. Þetta er yfirburðamarkaður.“
Til nánari útskýringar segir Halldór að lítil athygli sé á ETF-sjóðum á Íslandi í dag, en veruleg gróska sé á þessu sviði á erlendum mörkuðum. „Það eru til ótal ETF-sjóðir í Bandaríkjunum. Til dæmis geturðu keypt í sjóðum sem einbeita sér að því að kaupa korn, olíu eða aðra hrávöru, hlutabréfakörfur af ýmsu tagi, nú eða fjárfesta í hagkerfum landa, eins og við bjóðum nú upp á.“
Hann segir aðspurður að í GlacierShares Nasdaq Iceland ETF sé ekki verið að spegla íslensku úrvalsvísitöluna eins og hún leggur sig. „Þegar við bjuggum til vísitöluna vildum við upphaflega hafa þetta úrvalsvísitölusjóð með öllum félögum í íslensku vísitölunni. En fljótlega sáum við að það gengi ekki þar sem það eru hömlur á erlendri fjárfestingu í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum, en þau eru þrjú í kauphöllinni. Við urðum því að búa til nýja vísitölu sem endurspeglar íslenska hagkerfið.“
Samstarfsaðili við gerð vísitölunnar var vísitölufyrirtækið Market Vector. „Það tók drjúgan tíma að búa vísitöluna til þannig að hún yrði fjárfestingarhæf,“ útskýrir Helgi en bandaríska verðbréfaeftirlitið hefur einnig mjög skýran lagaramma utan um ETF-sjóði.
„Vísitalan okkar er því aðeins öðruvísi en íslenski markaðurinn í heild sinni. Samt sem áður endurspeglar hún íslenskt efnahagslíf, sem var markmiðið.“
Í staðinn fyrir íslensku sjávarútvegsfélögin voru sett inn í vísitöluna norsk og færeysk sjávarútvegsfyrirtæki og eldisfélög.
„Þetta eru mjög svipuð félög þeim íslensku. Með þessu gefum við fjárfestum tækifæri til að fjárfesta í norrænum sjávarútvegi.“
Halldór segir að um passíva fjárfestingu sé að ræða, sem almennt leitist ekki eftir áhrifum í félögum sem fjárfest er í, auk þess sem bandarísk lög sem um ETF-sjóði gilda setji þeim mörk að verulegu leyti, m.a. hvað hámarksfjárfestingu í einstökum félögum varðar. Þannig mega sjóðirnir almennt hvorki eiga ráðandi hlut né sækjast þau eftir að fá stjórnarmenn úthlutaða.
„Það er í raun synd að hömlur á fjárfestingu í íslenskum sjávarútvegi séu útfærðar með þessum hætti, því að erlenda fjárfestingin leitar þá bara í önnur félög í öðrum geirum, eða öðrum löndum eins og í þessu tilviki.“
Helgi kveðst vona að nýi sjóðurinn veki athygli erlendra fjárfesta almennt á íslenskum hlutabréfum og hjálpi íslensku kauphöllinni að komast upp um flokk hjá vísitölufyrirtækjum eins og FTSE í Bretlandi sem hefur nú þegar hækkað Ísland upp um einn flokk með góðum árangri.
„Sjóðurinn okkar gæti gegnt lykilhlutverki í að koma meira fjármagni inn á markaðinn og auka innflæði. Það gerir markaðinn hæfari til að vera í efri flokkum í stærri vísitölum.
Stórir vísitölusjóðir eru með talsverðan hluta af öllum viðskiptum á mörkuðum í hinum norrænu ríkjunum en mun minna á Íslandi eins og Helgi útskýrir. „Tilkoma okkar sjóðs er eitt af stóru skrefunum sem þarf að stíga til að auka sýnileika íslenskra hlutabréfa á erlendum markaði.“
Þeir Halldór og Helgi segjast einnig vona að sjóðurinn verði eins konar búðargluggi fyrir íslensk fyrirtæki til að kynna sig og sýna. „Þetta mun beina sjónum fjárfesta að Íslandi og íslenskum fyrirtækjum.“
Um íslenska hlutabréfamarkaðinn almennt segjast þeir Helgi og Halldór hafa mikla trú á honum til framtíðar. „Við teljum að markaðurinn og mörg einstök félög á honum eigi mikið inni og geti gert frábæra hluti á næstu árum. Þau fá vonandi verðskuldaða athygli frá erlendum fjárfestum sem mun þá skila sér í auknu innflæði fjármagns. Þá væntum við þess að þetta framtak veki áhuga á fjárfestingum í öðrum eignaflokkum eins og óskráðum félögum, framtakssjóðum, vísissjóðum, ríkisskuldabréfum og innviðafjárfestingum.“
Athygli vekur að stoðtækjafyrirtækið Embla Medical móðurfélag Össurar hf. er með í vísitölunni, en félagið er ekki skráð á íslenskan hlutabréfamarkað. „Þetta er íslenskt fyrirtæki að upplagi, einstakt á heimsvísu og vel þekkt í Bandaríkjunum, sem okkur fannst mjög mikilvægt að hafa með í vísitölunni.“
Aðspurðir segja Helgi og Halldór að líkleg stærð sjóðsins, með hliðsjón af sambærilegum sjóðum í Evrópu og á Norðurlöndum, hafi verið metin í fýsileikakönnun sem Teucrium Trading framkvæmdi á íslenska markaðnum. „Niðurstaðan úr þeirri könnun er að ætla megi að sjóðurinn geti orðið um 167 milljónir dollara að stærð innan þriggja ára, eða rúmur 21 milljarður íslenskra króna.“
Til samanburðar eru evrópskir landssjóðir að meðaltali 340 milljónir dala að stærð.
Um tímasetningu skráningar sjóðsins segir Helgi að hún sé áhugaverð, einkum í ljósi nýlegs áhuga Donalds Trumps Bandaríkjaforseta á Grænlandi og norðurslóðum. „Ísland er næsti nágranni Grænlands og oft er litið á Ísland sem gáttina inn á norðurslóðir. Það gæti aukið enn áhuga fjárfesta á sjóðnum,“ segja þeir Halldór og Helgi að lokum.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.