Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Keystrike hefur aukið hlutaféð sitt um 800 milljónir króna. Aðallega eru það íslenskir fjárfestar sem koma með féð inn í fyrirtækið.
Keystrike er á bakvið netöryggislausnina Sanctum Guard, sem greinir netárásir í rauntíma. Kvika banki hafði umsjón með hlutafjáraukningunni og er jafnframt einn fjárfesta Sanctum Guard í Bandaríkjunum, Evrópu og í Miðausturlöndum.
Frá stofnun fyrirtækisins hafa fjárfestar fjárfest allt að 1,4 milljörðum króna í fyrirtækinu, að því er fram kemur í tilkynningu.
Þar segir að fjármagnið verði nýtt í að styrkja sölu og viðskiptaþróun á erlendum mörkuðum og flýta þróun á Cloud Protector, skýjalausn sem fyrirtækið hafi nýverið fengið einkaleyfi á.
Haft er eftir Valdimari Óskarssyni, framkvæmdastjóra Keystrike, að teymið sé afskaplega ánægt með áhuga fjárfesta.
Nokkrir reynsluboltar í netöryggismálum komu að stofnun Keystrike. Þar ber að nefna dr. Ými Vigfússon, einn af stofnendum tölvuöryggisfyrirtækisins Syndis og Adversary og undanfarið dósent við Emory-háskólann í Georgíu í Bandaríkjunum.