Hermann Björnsson forstjóri tryggingafélagsins Sjóvár segir í samtali við ViðskiptaMoggann að fyrirtækið hafi lagt aukna áherslu á nýtingu eigin gagna í forvarnarstarfi á síðustu misserum. „Við búum yfir miklum upplýsingum og út frá þeim getum við séð ákveðna leitni í samfélaginu. Við mættum vera enn duglegri að miðla því til samfélagsins og fjölmiðla, í þeim tilgangi að draga úr tjónum. Nýlega vorum við t.d. með auglýsingar við sérstaklega hættuleg gatnamót og hringtorg til að minna á og vara við krefjandi aðstæðum á þeim stöðum. Sú herferð vakti marga til umhugsunar um hættuna sem fylgir umferðinni.“
Þegar Hermann er spurður um fleiri dæmi nefnir hann heita vinnu svokallaða, þegar unnið er með opinn eld. „Það var til dæmis orsökin fyrir brunanum í Kringlunni síðasta sumar. Hann olli miklu tjóni, einkum vegna vatnsskemmda. Það er víða pottur brotinn í þessari vinnu sem þarf að skoða betur. Við héldum ráðstefnu um málið síðastliðið haust og fengum sænskan sérfræðing til okkar. Svíum hefur tekist mjög vel að ráða við þetta og þeir hafa dregið úr tjónum vegna heitrar vinnu um 80%, einfaldlega með því að vera með fræðslu og agaðri vinnubrögð.“
Önnur leitni er gríðarleg aukning í framrúðutjónum. „Fjöldinn er orðinn svakalegur,“ segir Hermann. „Þetta er dýrt tjón, en í mörgum tilvikum er hægt að draga úr kostnaði og kolefnisspori með því að láta gera við rúðuna í stað þess að skipta henni út fyrir nýja. Oft er það ástand vega, aðferðir við lagningu slitlags og skortur á hreinsun gatna sem eru helstu orsakavaldar.“
Hermann minnist einnig á hættulega símanotkun í akstri. „Slysum þar sem bílar rekast beint hvor framan á annan, jafnvel við kjöraðstæður, hefur fjölgað. Fólk er því miður ekki með augun á veginum. Við fengum Samgöngustofu í samstarf með okkur og fórum af stað með herferð undir heitinu: Ekki taka skjáhættuna! Verkefnið hefur vakið verðskuldaða athygli og unnum við m.a. tvo Lúðra á ÍMARK-hátíðinni nú um daginn.“
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.