Fasteignaþróunarfélagið Aðaltorg undirbýr nú enn meiri uppbyggingu við Aðaltorg, gegnt Keflavíkurflugvelli. Ingvar Eyfjörð framkvæmdastjóri Aðaltorgs segir félagið áforma að byggja upp um 100 þúsund fermetra hverfi.
Hluti af því er að byggja samtals 450 íbúðir og 88 hjúkrunarrými í nýjum lífsgæðakjarna við Aðaltorg.
Hvað verður svæðið stórt fullbyggt, ef allt verður samþykkt og allt gengur upp?
„Þá verðum við búin að byggja um 100 þúsund fermetra lífsgæðakjarna. Íbúðirnar verða alls um 35 þúsund fermetrar en við erum búin að byggja 13 þúsund fermetra. Meirihlutinn, um 65 þúsund fermetrar, verður verslun, þjónusta, hjúkrunarrými og þess háttar.“
Þannig að það verða fleiri verslanir en þessi Nettóverslun í verslunarhúsinu sem þið eruð að staðsteypa núna?
„Já. Ásamt um 1.950 fermetra verslun Nettó verður sérverslun og veitingaþjónusta á neðri hæðinni. Á efri hæðinni verður tannlæknastofan Aðalbros með tíu stóla, ásamt skrifstofum. Við gerum ráð fyrir verklokum í desember og að starfsemin hefjist í byrjun næsta árs.“
Þetta eru margir fermetrar? Til dæmis er grunnflötur Kringlunnar um 60 þúsund fermetrar.
„Þetta er stór framkvæmd og mikið innlegg í að tengja nærsvæðið við flugvöllinn og hækka þjónustustigið í nærumhverfi hans,“ segir Ingvar.
Ítarlegt viðtal við Ingvar er að finna á miðopnu ViðskiptaMoggans í dag.