Alfa Framtak hefur lokið fjármögnun á rúmlega 22 milljarða króna framtakssjóði, AF3. Þetta er þriðji sjóður félagsins og markar mikilvæg tímamót í starfsemi þess. Líklegt er að sjóðurinn stækki enn frekar á árinu. Breiddin í hópi fjárfesta er töluverð, en meðal þeirra eru bæði íslenskar stofnanir og fagfjárfestar. Kjölfestufjárfestir í sjóðnum er Evrópski fjárfestingarsjóðurinn (EIF), sem fjárfestir í fyrsta sinn í íslenskum framtakssjóði.
Alfa Framtak er rekstraraðili sérhæfðra sjóða og hefur langa reynslu af fjárfestingum í óskráðum félögum. Markmið Alfa Framtaks er að skilja eftir sig jákvæð fótspor í íslensku viðskiptalífi með því að hámarka verðmæti fjárfestinga og styðja við vöxt fyrirtækja. Nú er félagið með þrjá sjóði í rekstri; AF1, AF2 og AF3. Stór hluti þeirra fjárfesta sem koma að þriðja sjóðnum, AF3, hafa verið fjárfestar í fyrri sjóðunum tveimur.
„Við erum einstaklega þakklát fyrir að svo stór hópur fjárfesta skuli sýna okkur þetta traust,“ segir Gunnar Páll Tryggvason, framkvæmdastjóri Alfa Framtaks, í tilkynningunni. Hann segir aðkoma EIF marka tímamót í rekstri félagsins.
„Aðkoma EIF brýtur blað í okkar rekstrarsögu, en sennilega er um að ræða fyrstu erlendu fjárfestinguna í íslenskum framtakssjóði. Þetta sýnir trú þeirra á íslensku atvinnulífi sem er virkilega jákvætt og eykur samkeppnishæfni landsins til lengri tíma.“
Í tilkynningunni segir að markmið sjóðsins sé að fjárfesta í fjölbreyttum fyrirtækjum og leiða umbreytingar í starfsemi þeirra. Þar kemur einnig fram að sú stefna hafi skilað góðum árangri í fyrri sjóðum.
„Verkefnin sem við höfum komið að eru mörg hver mjög ólík, en samnefnarinn er yfirleitt sá að við vinnum með öflugu fólki með stórar hugmyndir. Okkar hlutverk er að styðja þau í að raungera hugmyndir sínar og gera góð fyrirtæki betri. Þetta er okkar leið til þess að hafa jákvæð áhrif á íslenskt atvinnulíf,“ segir Gunnar Páll.
Meðal stærstu verkefna sem Alfa Framtak hefur komið að eru kaup Travel Connect á Iceland Travel, yfirtakan á Origo, og kaupin á ráðandi hlut í Lyf og heilsu. Þá segir Gunnar Páll framtaksfjárfestingar vera á tímamótum:
„Síðastliðinn áratug hefur umhverfið í fjárfestingum í óskráðum fyrirtækjum tekið stakkaskiptum. Mikill uppgangur hefur verið hjá íslenskum vísifjárfestum, nýir framtakssjóðir hafa rutt sér til rúms og erlendir fjárfestar eru farnir að sýna fjárfestingum hérlendis meiri áhuga. Ég tel okkur vera á ákveðnum tímamótum, framtakssjóðir eru búnir að sanna sig og nú er kominn tími til þess að taka næstu skref. Með stærri sjóðum getum við leikið stærra hlutverk og haft mótandi áhrif. Þannig getum við stutt betur við vaxtarfyrirtæki og innlend rekstrarfélög og hjálpað íslenskum útflutningsgreinum að hraða alþjóðlegri sókn.“
Í fréttatilkynningu Alfa Framtaks segir að fjárfestingarstefna AF3 sé sambærileg þeirri sem hafi verið í fyrri sjóðum félagsins. Hins vegar opni stærri sjóður á ný tækifæri og víðtækari áhrif.
AF1 er að stærð um 7 milljarðar og hefur fjárfest í sex verkefnum: Borgarplast, Motus, Málmsteypa Þorgríms Jónssonar, INVIT, Nox Health og Travel Connect.
AF2 er um 15 milljarðar og fullfjárfestur í verkefnunum Thor Ice Chilling Solutions, Origo/Skyggnir, Reykjafell, Knox Hotels, Tixly og Lyf og heilsa.