Evrópusambandið hefur í fyrsta sinn gripið til aðgerða samkvæmt nýju stafrænu samkeppnislögunum, Digital Markets Act (DMA), með því að sekta Apple og Meta um samtals 700 milljónir evra, sem samsvarar um 105 milljörðum íslenskra króna.
Apple fær 75 milljarða króna sekt fyrir að hindra forritara í að vísa notendum á ódýrari valkosti utan App Store. Meta þarf að greiða 30 milljarða króna, þar sem fyrirtækið bauð notendum aðeins tvo valkosti: að samþykkja persónusniðnar auglýsingar eða greiða fyrir auglýsingalausa þjónustu – án þess að bjóða raunverulegt og ódýrara val um betri persónuvernd.
Samkvæmt framkvæmdastjórninni brjóta báðar aðgerðir gegn nýju lögunum sem eiga að tryggja samkeppni og valfrelsi á netinu. Bæði fyrirtækin hyggjast áfrýja ákvörðunum ESB.
Þetta eru fyrstu viðurlög samkvæmt nýju samkeppnislögunum, sem gerir framkvæmdastjórninni kleift að sekta stór tæknifyrirtæki um allt að 10% af ársveltu þeirra – og allt að 20% ef brotin eru endurtekin. Skýr skilaboð, að sögn Brussel, um að nýjar reglur verði ekki aðeins skrifaðar – heldur verði þeim einnig framfylgt.