Innherji er skoðanadálkur ViðskiptaMoggans.
Í nýlegri grein CNN er því lýst hvernig tollastefna Donalds Trumps Bandaríkjaforseta hefur haft neikvæð áhrif á traust á hagkerfi eins stærsta viðskiptalands heims. Á örfáum vikum hefur forsetinn innleitt 25% tolla á allt ál og stál, 145% á kínverskar vörur og 10% grunnskatt á allar innfluttar vörur. Þetta hefur breytt heimsmynd alþjóðaviðskipta og að einhverju leyti skaðað ímynd Bandaríkjanna sem viðskiptaaðila.
Jerome Powell, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, hefur lýst því yfir að stefna stjórnvalda þar í landi geri alla áætlanagerð nær óframkvæmanlega, eða í besta falli marklausa. Það hefur síðan bein áhrif á verðlagningu fyrirtækja á markaði. Fyrirtækin sjálf vita einfaldlega ekki í hvaða rekstrarumhverfi þau muni starfa næstu mánuði.
Ekki má þó gleyma að í öllu róti eru tækifæri. Vandinn er að finna þau tækifæri og hafa þor og getu til að leggja á vaðið. Enn hangir Warren Buffett á milljörðunum í peningum sem hann losaði í byrjun árs og bíður færis. Athygli vakti þegar forseti Bandaríkjanna sendi skilaboð um daginn, þegar hann frestaði flestum tollum um 90 daga, að nú væri góður tími til að kaupa. Það hefur ekki alveg gengið eftir, ef tekið er mið af verðlagningu hlutabréfa, enda er erfitt fyrir fjárfesta að ráða í skilaboð forsetans.
Það er svipað og með gáturnar hans Nostradamusar spámanns frá 16. öld sem settar voru fram í ljóðaformi. Það er lesandinn sjálfur sem fyllir út í myndina og setur fram hinn endanlega spádóm. Spámaðurinn sá þetta ekki allt fyrir heldur skapaði jarðveginn fyrir túlkunina.
Gátur og ófyrirsjáanleiki er hins vegar eitthvað sem gengur illa fyrir fjárfesta. Íslensk stjórnvöld eru í sama feninu og Bandaríkjaforseti hvað það varðar. Tvö stór mál eru á teikniborðinu sem setja áætlanir í uppnám, annars vegar illa útfærð hækkun veiðigjalda sem virðist hafa verið gerð án nokkurrar greiningar á áhrifum fyrir útgerð og byggðarlög og hins vegar undirbúningur þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður við Evrópusambandið.
Tvöföldun veiðigjalda án nokkurs samtals eða sáttar við greinina getur dregið úr fjárfestingu, veikt byggðir og leitt til þess að verðmætasköpun flytjist úr landi. Markmið ríkisstjórnarinnar að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður við Evrópusambandið árið 2027, án nokkurra skilgreindra markmiða um hvað slík aðild þýðir fyrir þjóðina, eykur óvissuna enn frekar.
Stjórnmálamenn verða að leggja fram skýra stefnu sem allir geta skilið og leggja það fram af ábyrgð og í sátt við umhverfi sitt. Sömu aðilar ættu að sleppa því að setja skilaboðin fram í gátum í anda Nostradamusar.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.