Stjórn Landsvirkjunar samþykkti 21. febrúar sl. að leggja fram tillögu um að greiða eiganda sínum, íslenska ríkinu, 25 milljarða króna í arð vegna reksturs síðasta árs, eða 180 milljónir dala.
Þorri tekna Landsvirkjunar er í bandarískum dollurum og því er uppgjör félagsins og arðgreiðslur þess greitt í sömu mynt.
ViðskiptaMogginn hefur fengið það staðfest af upplýsingafulltrúa Landsvirkjunar að fyrir aðalfund félagsins, sem fram fór 14. apríl, hafi Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, farið fram á það við stjórn Landsvirkjunar að fjárhæð arðgreiðslunnar yrði aukin úr 180 milljónum dala í 195 milljónir, þar sem gengi krónunnar hafði styrkst nokkuð gagnvart dollar og 180 milljónir dala þá orðnir ígildi 22,5 milljarða króna, eða 2,5 milljörðum krónum lægra.
Arðgreiðslan er greidd í tvennu lagi, í maí og í nóvember næstkomandi. Ólíklegt er því að arðgreiðslan nemi þeirri krónutölu sem miðað var við upphaflega, þar sem hún er samþykkt í dollurum, og því vekur þessi hækkun til að mæta gengissveiflu yfir skamman tíma nokkra furðu þegar jafn langt er í að arðgreiðslan er framkvæmd og raun ber vitni.
Dollarinn hefur haldið áfram að veikjast síðan aðalfundurinn fór fram í apríl og þróun hans næstu misserin mikilli óvissu háð.
Ekki er vitað til þess að fordæmi séu fyrir því að ríkið fari fram á að arðgreiðsla Landsvirkjunar sé aukin með þessum hætti til þess að mæta gengissveiflum, en þó var fordæmi sett í þessum efnum á síðasta ári þegar þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra fór í fyrsta skipti fram á hærri arðgreiðslu en stjórn félagsins lagði til. Þá var arðgreiðslan aukin um sem nemur 10 milljörðum króna og sætti ráðherra nokkurri gagnrýni fyrir á sínum tíma, enda fyrirséð að fjárfestingar Landsvirkjunar verði umfangsmiklar á komandi árum og koma til með að ganga á uppsafnaðan óráðstafaðan hagnað.
Stjórn Landsvirkjunar getur þó lítið annað gert en að verða við óskum ríkisins í þessum efnum, enda er eigandinn aðeins einn sem samþykkir að lokum fjárhæð greiðslunnar. Þannig getur ríkið í reynd farið fram á eins háa arðgreiðslu og því sýnist.
Í upphaflegri frétt sem birtist í ViðskiptaMogganum í dag sagði fyrir mistök að aðalfundurinn hefði farið fram 4. mars, hið rétta er að hann fór fram 14. apríl. Það hefur verið leiðrétt og textinn sömuleiðis eftir því.