Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri gerði stöðu íslensku viðskiptabankanna að umræðuefni í ræðu sinni á ársfundi Seðlabankans fyrr í þessum mánuði. Hann nefndi að opinber umræða væri á þá leið að íslenskir bankar byggju við of miklar eiginfjárkvaðir og væru því ósamkeppnishæfir. Leiðir til úrbóta væru annaðhvort sameiningar banka eða aflétting kvaða. „Þarna átti ég við að kannski væri ekki ástæða til að kvarta. Arðsemi bankanna hefur tvöfaldast á síðustu fjórum árum. Þeir hafa náð að auka tekjur verulega og minnka kostnað á sama tíma. Þeir líta alls ekki illa út í erlendum samanburði,“ segir Ásgeir í samtali við ViðskiptaMoggann.
Eins og hann bendir á var fyrsta verkefnið sem beið hans þegar hann tók við embætti bankastjóra að sameina Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið. „Eftir sameininguna hefur Seðlabankinn nú fullt og óskorað umboð til að fylgja eftir fjármálastöðugleika. Við höfum lagt á það höfuðáherslu að tryggja viðnámsþrótt íslenska fjármálakerfisins. Það hefur verið gert með eiginfjárkröfum á bankana og skýrum reglum um hvernig beri að lána fé til heimilanna. Einnig eru skarpar reglur sem takmarka stöðutöku á gjaldeyrismarkaði í gegnum framvirka samninga til þess að halda erlendum spákaupmönnum í hæfilegri fjarlægð. Á sama tíma er það alveg skýrt að við viljum auka skilvirkni bankanna. Ég sjálfur hef alltaf stutt allt sem eykur hagræði í starfsemi þeirra. Ég vildi í ræðu minni árétta að þrátt fyrir þessa öflugu þjóðhagsvarúð hefur íslenska hagkerfið vaxið um 22% á sl. þremur árum og arðsemi bankanna tvöfaldast á sama tíma. Ég vildi benda þeim á að forðast skammsýni. Það er ekki aðeins að þjóðhagsvarúð og arðsamur rekstur geti farið saman, heldur er þjóðhagsvarúð forsenda þess að hægt sé að halda stöðugri arðsemi í fjármálakerfinu til lengri tíma.“
Hann segir að núverandi kerfi sé með skýrar leikreglur sem haldi ákveðnu jafnvægi milli bankanna og tryggi þeim stöðugar vaxtatekjur. „Og lánþegaskilyrðin hafa tryggt að heimilin hafa haldið sjó þrátt fyrir mjög aðhaldssama peningastefnu.“
Spurður að því hvort ekki sé skiljanlegt að fyrirtæki eins og íslensku bankarnir leitist við að stækka og hagræða með ytri vexti, segir Ásgeir að allt síðan hann fór sjálfur að greina bankarekstur á Íslandi og bera saman við útlenska banka hafi þeir íslensku alltaf litið mun verr út. „Það hefur alltaf verið miklu hærri kostnaður hér á landi, kostnaðarhlutfall og vaxtamunur. Þeir bara stóðust engan samanburð. En nú er það breytt.“
Hann segir að ef bankarnir séu bornir saman við svipað stóra banka annars staðar á Norðurlöndum sé munurinn ekki svo mikill. „Það sem munar um er að hér á landi eru bankarnir þrír kerfislega mikilvægir og bera eiginfjárkvaðir í samræmi við það. Bankar af sambærilegri stærð á Norðurlöndum eru ekki kerfislega mikilvægir og bera því eðlilega lægri eiginfjárkvaðir. Ég fagna umbótavilja frá bönkunum, en aukin arðsemi getur ekki verið fengin með því að veikja þá þjóðhagsvarúð sem er til staðar. Það kemur þeim sjálfum í koll. Sígandi lukka er best.“
Ásgeir bendir á að ýmis framþróun sé þrátt fyrir allt í gangi í fjármálakerfinu. Til að mynda verði áhugavert að sjá hverju sameining banka við tryggingafélög muni skila. „Nú eru tveir bankanna með tryggingafélög. Í gamla daga var alltaf sagt að það hefði aldrei náðst samlegð með banka- og tryggingarekstri þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, bæði hérlendis og erlendis. En kannski er það að breytast núna.
Í stuttu máli er sagan sú að íslensku bankarnir eru með góðan hagnað, lánabækur sem virðast vera í góðu lagi og eiginlega engin vanskil. Þeir mættu alveg hugleiða af hverju það er. Af hverju var hægt að auka útlán án þess að skapa tap?“ spyr Ásgeir. „Á árum áður var stundum talað um veiðarfærakostnað þannig að það væri eðlilegt að útlánatöp kæmu fram hjá bönkum eftir hraða aukningu útlána. En netin líta vel út hjá bönkum eins og staðan er í dag og lítið ber á vanskilum. Ég vil trúa því að ástæðan sé að einhverju marki sú umgjörð sem við höfum búið um fjármálastöðugleika hérlendis.“
Bankastjórinn telur ekki ólíklegt að sameiningar haldi áfram á fjármálamarkaði. „Þeir eru einmitt þrír í dag, Arion banki, Landsbankinn og Íslandsbanki. Þrír er galdratala í hagfræði. Ef bankarnir eru færri en þrír þá er ekki markaður.“
Einnig hefur Ásgeiri þótt mikilvægt að hafa beina fjármálalega milligöngu og öfluga markaði. Þar koma lífeyrissjóðirnir sterkir inn. „Þeir hafa vaxið mjög hratt,“ segir Ásgeir.
„Það skiptir máli að þeir hafi ramma eins og hverjir aðrir fjárfestar. Við gáfum út umræðurit um umbætur í lífeyrissjóðakerfinu síðasta haust og viljum að afnumdar verði margar skrýtnar séríslenskar og óhagkvæmar reglur sem gilda um starfsemi sjóðanna.“
Dæmi um slíkar reglur er að sjóðirnir mega ekki eiga meira en 20% í einum aðila. Þá mega þeir ekki gera afleiðusamninga. „Við viljum að skynsemisreglan ríki, að þeir geti tekið fjárfestingarákvarðanir eins og hverjir aðrir fjárfestingarsjóðir.“
Hluti af því, eins og Ásgeir útskýrir, er auknar kröfur um áhættustýringu og faglega stjórnun. „Við höfum átt í viðræðum við sjóðina um þessar tillögur. Við höfum verið sammála um að vera ósammála um sumt, en um annað erum við sammála,“ segir Ásgeir.
Um fyrra tímabil sitt og verkefnin sem hann vann þá segist hann ánægður með hvernig til tókst. „Hluti af því var að byggja upp þjóðhagsvarúð fyrir landið. Ég tel að margar ákvarðanir sem við höfum tekið hér í Seðlabankanum hafi reynst réttar,“ segir Ásgeir.
„Við höfum náð að sameina aukna þjóðhagsvarúð samhliða hagvexti og góðri afkomu hjá bönkunum, sem er mjög jákvætt. Það er auðvitað kostnaðarsamt að vera með stóran gjaldeyrisforða eins og við erum með en hann er algjörlega nauðsynlegur,“ útskýrir Ásgeir, en bankinn hóf á dögunum gjaldeyriskaup upp á sex milljónir evra í hverri viku, jafnvirði 870 milljóna íslenskra króna.
Ásgeir segir að nauðsynlegt sé að kostnaði vegna forðans sé deilt og bankarnir taki þátt í honum. „Lífeyrissjóðirnir hafa að einhverju leyti dregið sig út af gjaldeyrismarkaði hin síðari misseri og gengi krónunnar hefur verið að styrkjast. Forðinn minnkaði í covid-faraldrinum. Við seldum hann talsvert niður og ég tel að við þurfum að bæta í hann núna. Síðan þá hefur hagkerfið vaxið um 22% og forðinn þarf að fylgja með. Það er mikilvægt fyrir íslenskt hagkerfi að vera með rúman gjaldeyrisforða þegar farið er inn í tímabil óróleika,“ segir Ásgeir og vísar þar til titrings í alþjóðahagkerfinu vegna tollastefnu Donalds Trumps Bandaríkjaforseta.
„Það er ekki gott fyrir þjóðhagsvarúð að vera með viðskiptahalla sem gerir landið háð erlendu fjármagnsinnstreymi. Vegna smæðar krónunnar erum við alltaf bundin af þessu jarðsambandi. Við Íslendingar getum aldrei vikið frá jafnvægi í utanríkisviðskiptum í langan tíma án þess að það hefni sín. Virði krónunnar er á endanum alltaf byggt á útflutningi landsins. Öll verstu áföll sem við höfum orðið fyrir hafa orðið af því að við höfum misst stjórn á greiðslujöfnuðinum. Þá höfum við misst hagkerfið í þenslu og neyslu, sem hefur leitt til viðskiptahalla sem að lokum er leiðréttur með gengislækkun.“
Ásgeir segir að til að fá mjúka lendingu hagkerfisins skipti höfuðmáli að halda jafnvægi í fjármálakerfinu. „Þó að það hafi verið mikil verðbólga erum við ekki með skuldsett kerfi. Við höfum sterka banka, takmarkaðan viðskiptahalla og sæmilegt jafnvægi í fjármagnsstraumum til og frá landinu.“
Seðlabankinn hefur þurft að sýna stefnufestu í gegnum mikla uppgangstíma, að sögn seðlabankastjóra. „En núna þegar við stöndum frammi fyrir þessari nýju óvissu og ókyrrð hef ég trú á að þjóðin sjái að aginn var nauðsynlegur.“
Ásgeir kveðst vel meðvitaður um að vextir séu háir í landinu og erfitt sé fyrir fólk að fara inn á fasteignamarkaðinn. „Á sama tíma bind ég vonir við að við náum að sigla í gegnum þennan óróa sem er ekki yfirstaðinn,“ segir Ásgeir að lokum.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.