Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur gefið í skyn að mögulegur viðsnúningur sé fram undan í tollastríði Bandaríkjanna við Kína. Á blaðamannafundi í Hvíta húsinu á þriðjudag virtist Donald Trump staðfesta að háir tollar á kínverskar vörur myndu lækka verulega, en þeir yrðu þó ekki felldir niður með öllu.
Kemur þetta fram í frétt CNN og haft eftir forsetanum að 145% tollar séu auðvitað mjög háir en það verði ekki þannig til framtíðar. Hann hafi nefnt að það verði veruleg lækkun fljótlega en þó ekki niður í núll.
Ummæli forsetans komu í kjölfar orða fjármálaráðherrans Scotts Bessents fyrr þann sama dag, en hann sagði að núverandi tollar væru í raun orðnir að viðskiptabanni og að ólíklegt væri að ástandið héldist til lengri tíma. Hann lýsti því einnig yfir að spennan milli ríkjanna myndi dvína innan skamms.
Utanríkisráðuneyti Kína svaraði ummælum Trumps og Bessents með því að hvetja Bandaríkin til að hætta hótunum og þvingunum og snúa sér þess í stað að samvinnu á grundvelli jafnræðis og gagnkvæmrar virðingar.
Samkvæmt fleiri miðlum er vísað til þess að þessi breyting endurspegli raunverulega þann mikla þrýsting sem er á Bandaríkjastjórn vegna uppnáms í öllum viðskiptum og aukinnar andstöðu innanlands gegn tollunum. Hefur meðal annars seðlabankastjóri Bandaríkjanna, Jerome Powell, lýst því yfir að áætlanagerð sé í uppnámi og hefur gagnrýnt óstöðugleika og núverandi óvissu.
Tollastríðið hefur óhjákvæmilega haft mikil áhrif á alþjóðlega markaði og efnahag. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) lækkaði nýlega hagvaxtarspá sína fyrir árið 2025 niður í 2,8%, aðallega vegna áhrifanna af tollum Bandaríkjanna og Kína.
Það er ljóst að markaðir munu fylgjast náið með næstu skrefum stjórnvalda í von um að slaki myndist í þessu merkilega tilraunaverkefni Donalds Trumps.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.