Stefán Jökull Stefánsson, starfandi stjórnarformaður fjártæknifyrirtækisins Kríta, sem gekk um daginn frá fjögurra milljarða króna fjármögnunarsamningi við breska sjóðinn WinYield General Partners, eins og sagt var frá í Morgunblaðinu, segir í samtali við ViðskiptaMoggann að algengt vandamál í rekstri fyrirtækja sé skortur á lausafé til að láta fyrirtæki vaxa.
„Ein áhrifamesta bók sem ég hef lesið er saga sportvörurisans Nike en þrátt fyrir gífurlegan vöxt barðist félagið í bökkum í áratugi vegna skorts á lausafé,“ segir Stefán. Ástæðan var langur tími sem oft leið frá því að vara var framleidd og þar til hún fékkst greidd.
„Þetta er mjög algengt. Fyrirtæki í svipaðri stöðu leita til okkar, ekki af því að viðskiptavinir þeirra greiða ekki kröfurnar, heldur vegna þess að þeir sjá virði í að fá fjármunina fyrr og nýta þá strax í reksturinn. Þegar viðskiptavinur þeirra greiðir svo reikninginn, sem oft er gert á eindaga, greiðist lánið upp sem við veitum.“
Allt fer þetta fram í aðgengilegu formi á vefsíðu Kríta en viðskiptavinir fyrirtækisins eru nú orðnir um eitt þúsund talsins þótt félagið sé ungt að árum.
Spurður nánar um WinYield General Partners segist Stefán hafa rekist á það fyrir tilviljun þegar Kríta var að leita að mögulegum fjármögnunaraðila. Breska fyrirtækið sérhæfi sig í að fjármagna fjártæknifyrirtæki eins og Kríta. „Þeir lána okkur í lánabókina og eru einnig orðnir 10% eigendur í félaginu. Það hentar vel því það stillir saman gagnkvæma hagsmuni. Eignarhlutinn undirstrikar þá trú sem þeir hafa á okkur og íslenskum fjármálamarkaði.“
Aðspurður segir Stefán kaupverð hlutarins þýði að Kríta sé 300 milljóna króna virði. „Þetta er í fyrsta skipti sem við tökum inn hlutafé. Því er gott að fá þennan verðmiða á fyrirtækið.“
Stefán segir að þjónusta eins og sú sem Kríta veitir sé víða vinsæl erlendis, meðal annars vegna þess að fyrirtæki eins og Kríta horfa á fleiri þætti en hefðbundnar fjármálastofnanir þegar kemur að áhættumati. „Við horfum ekki bara til hefðbundinna þátta eins og ársreikninga eða trygginga, heldur líka á raunveruleg viðskiptasambönd. Ef fyrirtæki er með traust og virkt samband við viðskiptavini sína, sem reglulega greiða kröfur, þá skiptir það okkur miklu máli. Við skoðum greiðslusögu, viðskiptatíðni og metum almennt hversu áreiðanlegur greiðandinn er.“
Eins og fjártæknifyrirtækja er siður er mikil áhersla lögð á sjálfvirknivæðingu í öllum ferlum til að gera viðskiptin sem auðveldust og hröðust. „Fyrst vildi ég sjálfvirknivæða allt en svo áttaði ég mig á því að það verður að hafa einhvern mannlegan þátt í ferlinu. Hver og einn viðskiptavina okkar er því með viðskiptastjóra sem hægt er að hringja beint í og ræða við. Þetta er bæði skemmtilegt og mikilvægt. Með þessu kynnumst við kúnnanum og rekstri hans miklu betur.“
Stefán segir að eitt af því sem hann hafi komist að í störfum sínum fyrir Kríta sé hvað mikið sé til af flottum íslenskum fyrirtækjum, eins og hann orðar það. „Ég fer yfir tugi ársreikninga í hverri viku og fæ þannig innsýn í fjölbreyttan veruleika íslensks atvinnulífs. Ég ber mikla virðingu fyrir fólki í eigin atvinnurekstri sem tekur áhættu, skapar störf og leggur sitt af mörkum til samfélagsins. Það er í raun ótrúlega erfitt að stofna og reka eigin fyrirtæki og vera vakinn og sofinn yfir því nær allan sólarhringinn. Það er líka oft sagt um ehf.-endinguna í nafni fyrirtækja að það standi fyrir ekkert helvítis frí,“ segir Stefán og brosir.
Þessu hefur Stefán sjálfur kynnst en hann hefur komið að stofnun og rekstri fjölda fyrirtækja, þar af eins með eiginkonu sinni Söru Snædísi Ólafsdóttur. „Ég stofnaði hugbúnaðarfyrirtæki í Stokkhólmi rétt fyrir covid-faraldurinn þegar ég var þar í námi. Það þjónustar m.a. heilbrigðisstofnanir eins og Karólínska spítalann í vinnu með klínísk gögn. Stuttu síðar stofnuðum við hjónin fyrirtækið Withsara.com, en það framleiðir líkamsræktarmyndbönd og selur í áskrift til þúsunda kvenna um allan heim.“
Spurður um næstu framtíð segir Stefán að fyrirtæki eins og Kríta sé alltaf bundið af stærð lánabókarinnar. „Það er lagerinn sem þú getur selt út. En með fjóra milljarða til útlána höfum við nú mikla möguleika til að stækka og kynna þjónustuna. Slík útlánageta kallar hins vegar á breytingar. Við þurfum að þróa ferla, efla þjónustuna, ráða öflugt fólk og nýta tæknina enn betur.“
Eins og Stefán útskýrir er fyrirtækið dæmigert tæknifyrirtæki fyrir þá staðreynd að starfsemin er dreifð og ekki er þörf á öllum starfsmönnum á sama stað. „Ég er með teymi á skrifstofunni hér í Reykjavík en svo erum við með þjónustuver á Siglufirði, viðskiptastjóra fyrir landsbyggðina
á Reyðarfirði og tæknifólk í Tékklandi.“
Stefán segir að á næstu misserum skapist tækifæri til að þróa nýjar lausnir og lánavörur. „Við erum ekki aðeins í samkeppni við íslenskar fjármálastofnanir – við verðum líka að standast samanburð við alþjóðlega fjártæknirisa eins og Stripe, Wise eða Revolut, sem munu í auknum mæli sækja inn á íslenskan markað. Til að halda forskoti þurfum við að þróa öflugri tækni, veita hraðari og persónulegri þjónustu og skilja þarfir viðskiptavina okkar enn betur. Með því að koma fjármagninu í útlán viljum við styðja við vöxt íslenskra fyrirtækja, læra af þörfum þeirra og smíða nýjar vörur sem gagnast þeim,“ segir Stefán að endingu.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.