Annar áfangi Orkureitsins er nú kominn í sölu. Um er að ræða 133 nýjar íbúðir í svokölluðu D húsi sem rís á horni Suðurlandsbrautar og Grensásvegar. Íbúðirnar eru á verðbilinu 69-330 milljónir króna.
Hilmar Ágústsson, framkvæmdastjóri SAFÍR bygginga, segir í tilkynningu að sala íbúða á Orkureitnum hafi farið vel af stað.
„Við höfum verið með 68 íbúðir í sölu í fyrsta áfanga í A húsi frá síðasta vori. Íbúðirnar voru síðan afhentar í desember og 40 af þeim hafa þegar selst. Það er eins og fólk sé að átta sig á því hversu vel heppnaður Orkureiturinn er. Svansvottun íbúða, dagsbirtuvottun og loftræstikerfi í hverri íbúð fyrri sig og vandaðir inngarðar eru gæði sem sífellt fleiri kunna að meta. Staðsetning og góð tenging við Laugardalinn þar sem er fallegt útivistarsvæði skiptir fólk líka miklu máli. Þá eru nóg af bílastæðum í boði fyrir íbúa í bílastæðahúsum neðanjarðar sem er ekki sjálfsagður hlutur í dag," segir Hilmar.