Auglýsingastofan Pipar\TBWA hlaut á dögunum Lúðurinn, verðlaun ÍMARKS, samtaka auglýsinga- og markaðsfólks, fyrir herferðina Ekki taka skjáhættuna, m.a. í flokki almannatengsla.
Herferðin var unnin í samstarfi við tryggingafélagið Sjóvá og Samgöngustofu.
Eitt ár er nú liðið síðan Pipar\TBWA stofnaði almannatengsladeild og fékk fyrsta starfsmanninn, Láru Zulimu Ómarsdóttur, til liðs við sig.
Deildin kallast FEED en sambærileg þjónusta er í boði hjá TBWA-systurstofum Pipars\TBWA um allan heim.
„Verðlaunaherferðin snerist um að vekja fólk til vitundar um hættuna sem fylgir því að vera í símanum undir stýri,“ segir Lára í samtali við Morgunblaðið.
Spurð að því hvernig svona herferð sé unnin segir Lára að verkefni almannatengilsins felist í að koma auga á hvaða skilaboð eigi heima í fréttum. „Fréttir ýta undir trúverðugleika. En til að ná að koma skilaboðum í fjölmiðla þarftu að vera með frétt eða sögu í höndunum til að byrja með. Það er lykillinn að árangri. Í þessu tilviki vorum við með virkilega flotta auglýsingaherferð með almannaheillamarkmiði og boðskapur auglýsinganna var mjög sterkur. Það auðveldar starfið og það voru fleiri en ein saga og fréttamolar sem við höfðum úr að moða.“
Lára segir að notast hafi verið við ítarlega tölfræði frá lögreglunni um slys vegna skjánotkunar, tölur um sektargreiðslur frá Samgöngustofu og árekstrartölur frá Sjóvá.
„Þessir fréttapunktar sem og samspil flottrar hugmyndar og hönnunar og birtingar auglýsinga í réttum miðlum hjálpaðist allt að. Myndir voru birtar af brotnum skjám á veggspjöldum og skiltum, m.a. Pipar vann einmitt líka til verðlauna í þeim flokki. Skemmtileg orðasambönd lyfta einnig upp svona herferð. Þannig að það var fullt af fréttapunktum í þessari ákveðnu herferð.“
Hún segir að vel hafi tekist til. „Þetta fékk mikla umfjöllun. Við vorum í öllum fréttatímum, Kastljósi, útvarpsþáttum og fleiri miðlum með mismunandi vinkla á sömu frétt,“ segir Lára og ítrekar að helsti galdurinn í svona starfi sé að koma auga á fréttapunktana og koma sömu lykilskilaboðum á framfæri með mismunandi hætti.
Hún segir að ekki sé öllum gefið að sjá kjarna málsins. Því sé algengt að fyrirtæki og félagasamtök leiti til almannatengslastofa. Oft sé erfitt að sjá aðalatriðin nema horfa á hlutina utan frá.
Lára segir að verkefni FEED séu mörg og fjölbreytt. „Í mörgum tilvikum sjáum við um öll samskipti við almenning. Það getur verið í formi frétta en einnig sem regluleg skrif inn á samfélagsmiðla viðskiptavina og heimasíður þeirra.“
Út á við er mikilvægt fyrir fyrirtæki að vera með samræmd skilaboð á öllum sínum miðlum, segir Lára.
Hún segir að þjónusta FEED hafi mælst vel fyrir. Það sjáist best í því að starfsmenn eru nú orðnir sex talsins á aðeins einu ári.
Lára segir vandasamt að vinna gott efni fyrir samfélagsmiðla. „Það er miklu meiri vinna á bak við það en fólk gerir sér grein fyrir. Það er ekki nóg að skrifa bara einn „status“. Það virkar ekki þannig ef fólk vill ná árangri.“
Lára bætir við að margir vanræki samfélagsmiðla í sinni markaðssetningu. „Við gerum þetta skipulega og mörkum stefnu fyrir viðskiptavini áður en haldið er af stað. Þá eru sett mælanleg markmið og unnið faglega á alla lund. Viðskiptavinir sjá fljótt árangur.“
Fimmtíu prósent Íslendinga leita sér upplýsinga fyrst og fremst í gegnum samfélagsmiðla eins og Lára útskýrir. Þó er ekki endilega víst að ólíkir samfélagsmiðlar henti öllum. „Það þarf að móta það vel og fer eftir við hvern þú vilt tala. Það er til dæmis mikil vinna að gera efni fyrir TikTok. Það þarf að skilgreina vel hvern þú ætlar að ná sambandi við.“
Þá er ekki vænlegt til árangurs að gera herferð á samfélagsmiðlum og láta svo staðar numið. Mikilvægt er að sögn Láru að halda áfram með reglulegar færslur og marka sér stefnu.
„Til dæmis er hjálplegt að skoða vel hvenær dagsins fólk notar miðlana, sem er mjög mismunandi.“
Einnig er mikilvægt að sögn Láru að gera sér grein fyrir að samfélagsmiðlar eru vettvangur félagslegra athafna og koma jafnvel í staðinn fyrir hefðbundna saumaklúbba. „Þess vegna er brýnt að fólk og fyrirtæki sýni að það sé inni á miðlunum til að eiga félagsleg samskipti, tilbúið að tala við fólk. Það virkar ekki að birta bara einhverja mynd eða auglýsingu þegar fólkið er að sækjast eftir félagsskap.“
Lára kom víða við í fjölmiðlum áður en hún fór í almannatengslin. Hún byrjaði á Stöð 2, átti viðkomu á Morgunblaðinu og var fréttamaður á RÚV í sextán ár.
„Það æxlaðist einhvern veginn þannig að ég fór í almannatengslin. Ég hef þó ekki getað slitið mig alveg frá fjölmiðlum. Ég gerði til dæmis heimildarmyndina Halla Har – brautryðjandi í fyrra og var að gera sjónvarpsþætti fyrir RÚV sem verða sýndir á árinu,“ segir Lára að lokum.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.