Ásgeir Ingvarsson kafar ofan í fréttir af erlendum vettvangi í ViðskiptaMogganum á miðvikudögum.
Í síðustu viku gerði ég mér ferð í elsta borgarhluta Túnis, þar sem göturnar eru svo eldgamlar og þröngar að engir bílar komast fyrir og byggðin er eitt stórt völundarhús. Ég þurfti að komast til rakara og ályktaði – réttilega – að einhvers staðar í gamla bænum myndi ég finna þaulvanan karl í litlu skoti sem kynni að snyrta á mér skeggið að hætti heimamanna.
Til að rata þurfti ég að nota kortið í símanum og rak mig í rogastans – og varð meira en lítið spenntur – þegar ég sá þar merkt inn: heimili Ibns Khalduns.
Byggingin lætur ekki mikið yfir sér og hlýtur að hafa verið endurbyggð mörgum sinnum, enda nærri 700 ár liðin frá fæðingu þessa merka menntamanns, en við hurð nr. 33 á Rue Tourbet El Bey er lítið skilti þar sem stendur ritað á arabísku: „Í þessu húsi fæddist sagnfræðingurinn og fræðimaðurinn Abd al-Rahman Ibn Khaldun á fyrsta degi ramadan 1332 (732 AH).“
Það sætir furðu að ekki sé fyrir löngu búið að breyta húsinu í safn, enda mætti kalla Ibn Khaldun merkasta hugsuð íslömsku gullaldarinnar. Kenningar hans lögðu grunninn að heilu fræðigreinunum, s.s. hagfræði, stjórnmálafræði og félagsvísindum, og nærri fjórum öldum á undan Adam Smith skrifaði Ibn Khaldun um hagræna kosti sérhæfingar og verkaskiptingar; hvernig inngrip stjórnvalda skaða efnahagslífið og hvernig molnar undan stoðum samfélagsins ef eignarrétturinn er ekki verndaður. Þegar nýkjörinn Ronald Reagan kynnti efnahagsumbótaáætlun sína árið 1981 vitnaði hann í Ibn Khaldun sem hafði komið auga á – eins og Arthur Laffer gerði löngu síðar – að eftir því sem stjórnvöld hækka skatta, því minni verða heimturnar uns fólk missir allan hvata til að skapa verðmæti.
Áhrifa Ibns Khalduns gætir víða, og ættu aðdáendur Dune-kvikmyndanna og -bókanna og Foundation-bókaflokksins að finna kunnugleg hugtök í þeim skrifum sem arabíski fjölfræðingurinn er þekktastur fyrir, þar sem hann reynir að útskýra ris og fall stórvelda. Hann benti á að þegar samfélög eru komin að fótum fram birtist iðulega öflugur bjargvættur eða byltingarleiðtogi, mahdi, sem þjappar fólki saman (með góðu eða illu!) og skapar öflugt ríki sem blómstrar en verður eigin velgengni að bráð eftir nokkrar kynslóðir, og hnignar uns nýr mahdi stígur fram og reisir nýtt samfélag á rústum þess gamla, og þannig koll af kolli.
Ibn Khaldun áttaði sig á að í Afríku höfðu mörg stórveldi komið og farið löngu fyrir hans tíð, og hann var nógu næmur til að sjá og skilja að gullöld hins arabíska heims væri senn á enda og nýtt leiðandi afl að taka á sig mynd í hinni kristnu Evrópu.
Það er hér sem Donald Trump kemur inn í myndina, því að innreið hans í bandarísk stjórnmál fellur vel að kenningum Ibns Khalduns. Donald Trump er mahdi okkar tíma, ekki vegna þess hvað hann er frábær og æðislegur afburðamaður í alla staði, heldur einmitt vegna þess hvað hann er sjálfhverfur, ófyrirsjáanlegur og óskammfeilinn fauti.
Þegar sagan er skoðuð má finna fjölmörg dæmi sem passa vel við kenningar Ibns Khalduns. Það virðist gerast, æ ofan í æ, að samfélögum tekur að hnigna einmitt vegna þess hvað þeim gengur vel. Velmegunin verður þess valdandi að stjórnkerfið blæs út og kæfir smám saman raunhagkerfið. Samhliða því verður til æ stærri elítustétt embættismanna og auðmanna, og fylgihnatta þeirra, sem gleyma sér í lífsins lystisemdum og missa tökin bæði á sjálfum sér og ríkinu sem þeim hefur verið falið að stýra, og verða að lokum svo linir, spilltir og vanhæfir að minnstu áföll geta riðið samfélaginu að fullu.
Þegar þjóðfélagið er komið á vonarvöl stígur fram grjótharður nagli sem var mótaður á jaðri samfélagsins, og er fyrir vikið laus við þá bresti og veikleika sem gerðu fráfarandi elítu lina og lélega. Hann kann að fá almenning á sitt band, oft með því að vísa til íhaldssamra gilda, og fólkið fagnar honum sem bjargvætti.
Rifjum upp, sem snöggvast, hvernig landslagið var í bandarískum stjórnmálum þegar Trump bauð sig fyrst fram: Stjórnmálaelítan og stjórnkerfið allt var fyrir löngu orðin einsleitt, og sami óþefurinn af valdastofnunum samfélagsins – að fjölmiðlum meðtöldum. Umræðan litaðist æ meira af pólitískri réttsýni og dyggðaskreytingum, og langbesta leiðin til að koma höggi á andstæðinginn var að finna einhverjar minni háttar sakir langt aftur úr fortíðinni til að blása upp, eða skálda upp. Í stað málefnalegrar umræðu var vaðið í manninn með skítkasti og aðdróttunum.
Svo kom Trump, og spilaði eftir allt öðrum reglum. Hann hafði verið nógu lengi á sjónvarpsskjánum til að kjósendur hefðu ágætis hugmynd um hvaða mann hann hefði að geyma, og hann var svo óforskammaður að hefðbundnar árásir demókrata gátu ekki loðað við hann. Frekar en að svara árásunum lið fyrir lið, og vera málefnalegur eins og aðrir hefðu gert, gaf hann einfaldlega frat í andstæðinga sína og uppnefndi þá eins og óknyttastrákur á leikskólalóð. Á Wikipediu má meira að segja finna langan lista af þeim uppnefnum sem Trump hefur útdeilt á innlenda og erlenda stjórnmálamenn, og eru þau jafnlýsandi og jafnfyndin og þau eru barnaleg.
Sumsé: ekkert fékk bitið á Trump, og almenningur sá í honum tækifæri til að hrista upp í kerfinu og vonandi laga það sem laga þyrfti. Tók steininn úr þegar merkikertið Hillary Clinton kallaði stuðningsmenn Trumps rumpulýð (e. basket of deplorables) svo að blasti við hvers konar gjá hafði myndast á milli bandarísku elítunnar og venjulegra bandarískra kjósenda.
Aldrei hefur Trump orðið kjaftstopp, aldrei hefur hann lýst sig sigraðan, og aldrei hefur hann beðist afsökunar.
Hitt er svo annað mál hvort það boði gott að mahdi skuli vera mættur á svæðið.
Örlögin höguðu því þannig til að árið 1401 hittust Ibn Khaldun og túrkmenski herstjórinn Tímúr fyrir utan borgarmúra Damaskus, en þeim fundi hefur verið líkt við það þegar Alexander mikli hitti Aristóteles, eða þegar Goethe hitti Napóleon. Íbúar Damaskus sendu fulltrúa sína til Tímúrs til að reyna að semja við hann um að hlífa borginni, og slóst Ibn Khaldun með í för. Fór svo vel á með fræðimanninum og herstjóranum grimma að í 35 daga spurðu þeir hvor annan spjörunum úr. Tímúr vildi vita allt sem hann gat um aðstæður í Norður-Afríku og hefur eflaust viljað meta hvort hann gæti stækkað veldi sitt í vesturátt. Ibn Khaldun leit hins vegar á Tímúr sem fyrirbæri sem kjörið væri að rannsaka.
Tímúr var einmitt ekta mahdi, og hafði fyllt upp í það tómarúm sem skapaðist þegar Mongólaveldið var við það að líða undir lok, einmitt eftir forskrift Ibns Khalduns. Á endanum teygði veldi hans sig alla leið frá Tyrklandi í vestri til Indlands í austri, og allt sem þurfti var smá trúarhiti, vægðarlaus grimmd, og um það bil 17 milljón mannslíf.
Til að lýsa hvers konar mann Tímúr hafði að geyma, og hvaða brögðum hann beitti, þá sat hann eitt sinn um tyrknesku borgina Sivas og lofaði að engu blóði yrði úthellt ef íbúarnir gæfust upp. Borgarbúar hleyptu þá Tímúr inn og lét hann óðara taka 3.000 manns og grafa lifandi. Hann sagðist hafa staðið við orð sín, enda blæddi ekki úr fórnarlömbum hans eftir að mokað hafði verið yfir þau.
Ibn Khaldun var að lokum leyft að halda til heimilis síns í Kaíró. Á meðan á því ferðalagi stóð réðst Tímúr inn í Damaskus og framdi þar einhver skelfilegustu voðaverk sem sögur fara af. Þegar borgin hafði verið lögð í rúst lét Tímúr stafla þar upp í stóra hrúgu 20.000 hausum fórnarlamba sinna en þeir einu sem hann hlífði voru handverksmenn borgarinnar sem sendir voru til starfa í Samarkand þar sem þeir gætu orðið að einhverju gagni.
Tímúr tókst að leggja undir sig mikið landsvæði og íbúar Samarkand voru afskaplega ánægðir með sinn mann. Honum tókst hins vegar ekki að koma á nógu góðu stjórnkerfi og þegar veikindi felldu Tímúr klofnaði veldið strax í smærri einingar, og afkomendur hans og arftakar áttu í stöðugum illdeilum og átökum. Einni öld síðar var næstum ekkert eftir af því sem Tímúr hafði byggt.
Það er nefnilega ekki nóg, eitt og sér, að hrista upp í hlutunum.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.