Ingvar Eyfjörð, framkvæmdastjóri Aðaltorgs, segir félagið ætla að breikka hluthafahópinn vegna fyrirhugrar uppbyggingar á nokkur hundruð íbúðum við Aðaltorg, gegnt Keflavíkurflugvelli.
„Við erum með öfluga hluthafa sem hafa staðið þétt við bakið á okkur og svo höfum við verið með innlenda bankafjármögnun en Íslandsbanki er aðalbankinn okkar,“ segir Ingvar sem er meðal hluthafa. „Við áætlum þó að breikka hluthafahópinn á komandi misserum enda umfang verkefnisins að aukast verulega en við höfum falið Arctica Finance að undirbúa og stýra þeirri vinnu,“ segir Ingvar.
„Við erum nú að reisa staðsteypt verslunar- og þjónustuhús við hlið hótelsins á Aðaltorgi þar sem verður matvöruverslun Nettó og önnur þjónusta, eins og áður segir. Við erum jafnframt að ljúka hönnun á nýju íbúðahverfi en skipulagið gerir ráð fyrir 312 íbúðum í fjögurra hæða einingahúsum; 160 stúdíóíbúðum, 104 þriggja herbergja íbúðum og 48 fjögurra herbergja íbúðum.
Við stefnum að því að uppsetningu fyrstu 96 íbúðanna ljúki sumarið 2026 og að þær komi til afhendingar síðla árs 2026. Íbúðirnar eru, líkt og hóteleiningarnar, smíðaðar af CIMC en fyrirtækið er með höfuðstöðvar í Jiangmen í Kína,“ segir Ingvar en ekki liggur fyrir hvort íbúðirnar verði alfarið leiguíbúðir.
Ítarlegt viðtal við Ingvar birtist í ViðskiptaMogganum síðasta miðvikudag.