Ingvar Eyfjörð, framkvæmdastjóri Aðaltorgs, segir fullinnréttaðar stálgrindareiningar frá kínverska stórfyrirtækinu CIMC í Jiangmen hafa reynst afar vel í Courtyard by Marriott-hótelinu við Aðaltorg, gegnt Keflavíkurflugvelli, og að fram undan sé uppbygging á nokkur hundruð íbúðum með sömu tækni.
Ingvar segir hótelið hafa fagnað fimm ára afmæli í apríl.
„Árið 2017 opnaði Olís sjálfsafgreiðslustöð ÓB austan við hótelið en uppbygging þess hófst árið 2019. Við opnuðum hótelið formlega 14. apríl 2020 og áttum því fimm ára afmæli í þessum mánuði. Eiginleg starfsemi í húsinu hófst þó ekki fyrr en 1. október 2020 vegna samkomutakmarkana í farsóttinni,“ sagði Ingvar.
„Við opnuðum veitingastaðinn The Bridge á hótelinu en á síðasta ári tók Tokyo Sushi við rekstri veitingastaðarins í hótelbyggingunni. Árið 2022 var hárgreiðslustofan Draumahár opnuð í byggingunni og gleraugnaverslunin Reykjanes Optikk. Í mars 2023 var veitingahúsið Langbest opnað í húsinu en jafnframt reisti félagið bílaapótek fyrir rekstur Apóteks Suðurnesja, sem rekið er undir merkjum Lyfjavals, gegnt hótelinu. Þar er hægt að fá lyf afgreidd út um bílalúgur eða í verslun þess með hefðbundnum hætti.
Sumarið 2023 var jafnframt hraðhleðslugarður tekinn í notkun á Aðaltorgi en HS Orka og InstaVolt eiga þar í samstarfi,“ sagði Ingvar.
Hvað með endinguna á einingahúsunum? Þú nefndir að fimm ár eru liðin frá því að Marriott Courtyard-hótelið var opnað og að byggingin hefði reynst vel.
„Við teljum að Íslendingar eigi mikið ólært um einingaframleiðslu. Og ástæðan fyrir því að við vildum ekki fara í þessar stöðluðu og hefðbundnu lausnir er að við teljum þær einingar ekki henta fyrir íslenskar aðstæður. Uppgefinn endingartími, af því að þetta er fullinnréttað stálgrindarhús, er gefinn upp 60 ár en um 40 ár í steypunni, þannig að þetta stenst væntingar á líftímanum alveg eins og steypan. Svo vegur mjög þungt, ef ákveðið er að breyta notkun húsnæðisins, að það er mjög auðvelt að taka einingarnar niður og breyta hlutverki þeirra,“ segir Ingvar Eyfjörð að lokum.
Ítarlega var rætt við hann á miðopnu síðasta ViðskiptaMogga.