Umræðan um mikilvægi nýsköpunar og vaxtarhugafars hefur um allnokkurt skeið verið rík í íslensku atvinnulífi enda hefur ávinningurinn haft bein áhrif á samfélagið með aukinni velmegun og nýjum atvinnutækifærum. Árangurinn er augljós; við þekkjum þessi íslensku fyrirtæki sem hafa sett sögu sína á blað og fjölgun svokallaðra einhyrninga er fagnaðarefni. En hvernig hafa sjónarmið vaxtar og rekstrarhagkvæmni breyst með auknum umsvifum nýsköpunar?
Í þessu samhengi er skemmtilegt að líta um öxl, en það er ekki svo langt síðan rekstrarhagkvæmni var mikilvægasti mælikvarðinn á árangur skipulagsheilda þótt vöxtur hafi alltaf verið áhugaverður. Ég fletti upp í námsefni frá háskólaárunum og stjórnunarbókum, t.a.m. eftir föður minn Þorkel Sigurlaugsson, frá lokum síðustu aldar og byrjun 21. aldar til að setja þetta í sögulegt samhengi. Á þeim tíma var góður forstjóri einfaldlega rekstraraðili og aðferðir samhæfðs árangursmats (e. Balanced Scorecards), altækrar gæðastjórnunar (e. TQM) og endurgerð vinnuferla (e. BPM) vinsælar stjórnunaraðferðir. Þessi tól, eins og önnur, virka við tiltekin verkefni og í ákveðinn tíma.
Viðskiptaumhverfið hefur breyst, ný vídd nýsköpunar bæst í flóruna þar sem hraðinn er meiri og tækifæri til að ná árangri og veldisvexti á stuttum tíma raunverulegur. Stjórnendur standa frammi fyrir nýjum áherslum, s.s. sjálfbærni, jafnlaunavottun og flóknu regluverki sem hefur svo sannarlega ekki einfaldað landslagið. Aftur á móti hafa gervigreind, ný tækni og hugbúnaður einfaldað mörg verkefni og aukið hagkvæmni og hraða. Leiðtoga- og hugsjónahlutverk forstjórans er nú ekki síður mikilvægt.
Um aldamótin var ennþá mest áhersla á rekstrarhagkvæmni hefðbundinna auðlindagreina en fljótlega byrjaði viðskiptalífið og stjórnvöld að tala fyrir framtíðarsýn þar sem horfa yrði til langtímastefnumótunar með aukinni áherslu á nýsköpun. Truflun varð þegar DOT COM-bólan sprakk með tilheyrandi vantrú fjárfesta á internetdrifnum fjárfestingum og síðan bankahrunið þar sem vonin um Ísland sem fjármálamiðstöð varð að engu. Í dag er mikilvægi hugverkaiðnaðar orðið flestum ljós og í víðum skilningi þess hugtaks stærsta stoðin í atvinnulífinu innan nokkurra ára.
Rekstrarhagkvæmni skiptir enn máli, en hefur fengið nýtt hlutverk og vægi með aukinni nýsköpun og vexti. Vöxtur krefst hugarfars sem einkennist af hæfileikum til að fagna áskorunum, sjá þær sem tækifæri, vera tilbúin í breytingar, læra af mistökum og hafa seiglu til að halda áfram þegar á móti blæs. Fyrirtæki í vaxtarumhverfi þekkja vel mikilvægi skalanleika og fókusinn hefur gjarnan verið á vöruna sjálfa og þróun hennar, minna á undirstöðurnar. Það er þó mikilvægt að vinna að innviðauppbyggingu og fjárfesta einnig í undirstöðunum þegar vel gengur.
Ríkisvaldið þarf einnig að sinna þessum málaflokki. Undirstöður og innviðir eins og hafnir, flugvellir og vegagerð voru mikilvægir innviðir í auðlindadrifnu hagkerfi. Í hugvitsdrifnu samfélagi þarf að setja fjármuni t.d. í háskólana, rannsóknir og vísindastarf svo við séum samkeppnisfær við nágrannaþjóðir og skapa nýja atvinnustarfsemi með ungri vel menntaðri kynslóð.
Forðast ber þó að setja samasemmerki milli innviðauppbyggingar og íhaldssamra kerfa og skriffinnsku sem tefur vöxt, sem varð raunveruleiki margra aldamótafyrirtækja. Nauðsynlegt er að fjárfesta í undirstöðum með áherslu á skalanleika og sjálfvirknivæðingu. Vaxtarhugafar á nefnilega ekki einungis við sölu-, markaðs- og vöruþróun heldur einnig í þjónustu-, rekstrar- og stoðeiningum, þó það sé með öðru sniði og ekki leiðandi.
Búa þarf til jarðveg þar sem sala og vöruþróun geta unnið að vaxtarmarkmiðum á sama tíma og rekstrar- og stoðeiningar hafa umboð til að vinna að skilvirkni með aðlögunarhæfni og langtímarekstarhagkvæmni í huga, án þess að takmarka vöxt, heldur þvert á móti til að styðja við hann og búa til sveiganleika ef bregðast þarf hratt við.
Pistillinn birtist fyrst í ViðskiptaMogganum sem kom út sl. miðvikudag.