Ingvar Eyfjörð, framkvæmdastjóri Aðaltorgs, boðar uppbyggingu lífsgæðakjarna við Aðaltorg, gegnt Keflavíkurflugvelli, á næstu árum. Lífsgæðakjarninn verður við hlið Marriott-hótelsins á Aðaltorgi en þar er nú verið að byggja verslunarhúsnæði fyrir Nettó og skrifstofur og þjónustu á efri hæð.
Lífsgæðakjarni er nýlunda á íslenskum fasteignamarkaði. En hvað skyldi lífsgæðakjarni vera?
„Lífsgæðakjarnar eru tiltölulega nýtt hugtak við fasteignaþróun þar sem ólík búsetuform eins og eignar- og leiguíbúðir ásamt hjúkrunarrýmum geta stuðlað að öflugu samfélagi eldri borgara þar sem öll meginnærþjónusta er í göngufæri, s.s. matvöruverslun, smávöruverslanir, útivistarsvæði, heilsutengd þjónusta og önnur fjölbreytt atvinnustarfsemi,“ segir Ingvar.
„Innan lífsgæðakjarna Aðaltorgs gerir skipulagið ráð fyrir 138 öryggis- og þjónustuíbúðum til viðbótar við 312 almennar íbúðir. Stefnan kallast á við þá staðreynd að aldurssamsetning þjóðarinnar er að breytast og hún að eldast. Því viljum við taka mið af þeirri þróun í uppbyggingaráætlunum okkar,“ segir Ingvar og lýsir svo aðdragandanum.
„Eftir að við eignuðumst fasteignina fórum við í skipulagsbreytingar, lögðum fram þessa uppbyggingaráætlun og stækkuðum reitinn. Það var árið 2016 og í framhaldinu fórum við að huga að þessu hóteli.
Við fengum amerískan viðskiptaarkitekt að nafni John Coles frá stofunni Arrows Street í Boston og Ragnar Atla Guðmundsson hjá Þróun og ráðgjöf til þess að koma og ráðleggja okkur hvernig væri hægt að breyta þessu svæði í verslunarsvæði. Útkoman var áætlun sem heitir frá Móa til Torgs.“
Hvaðan kom sú hugmynd að fá Marriott hingað?
„Við byrjuðum á að ræða við innlendar hótelkeðjur og vorum fyrst í viðræðum við Hilton-hótelkeðjuna. Þegar rekstraraðilar Hilton á Íslandi gengu úr skaftinu hafði ég samband við stórar alþjóðlegar hótelkeðjur sem allar sýndu þessu mikinn áhuga og svo fór að við gengum til samninga við Marriott.“
Þannig að þið gátuð valið úr hótelkeðjum?
„Já. Það var enda mikill vöxtur í ferðaþjónustunni árin 2016 og 2017,“ segir Ingvar.
Ítarlega var rætt við hann á miðopnu síðasta ViðskiptaMogga.