Hið ljúfa líf er vikulegur lífstílsdálkur ViðskiptaMoggans og kemur út alla miðvikudaga.
Þegar ekið er um Breiðamerkursand má við bærilegar aðstæður sjá þrjár eyjar úti fyrir ströndinni. Þær bera eitt og sama heitið. Kenndar við landnámsmanninn Hrollaug, þann sem varpaði öndvegissúlum sínum fyrir borð er hann kom að landi við Hornafjörð og helgaði sér síðar land frá Horni til Kvíár.
Hann var sonur Rögnvaldar jarls og hálfbróðir Göngu-Hrólfs sem gerðist hertogi í Normandí. Hrollaugur var langafi Síðu-Halls sem réð hvað mestu um að Ísland var kristni helgað á Alþingi árið 1000.
Hrollaugur var mikill höfðingi og mótaði það samfélag sem síðar byggðist. Nafn hans er flestum gleymt nema fyrir eyjarnar þrjár og Hrollaugsstaði sem þó eru ekki eins tilkomumiklir og þær.
En Suðursveit og Öræfi eru enn byggð höfðingjum. Þess verður maður fljótt áskynja þegar farið er um svæðið. Þótt Örn Bergsson hafi nú brugðið búi á Hofi gera afkomendur hans garðinn frægan enn á svæðinu. Það á meðal annars við um bekkjarbróður minn úr Verslunarskólanum, Steinþór Arnarson, sem síðasta rúma áratuginn hefur byggt upp glæsilega ferðaþjónustu í kringum siglingar á Fjallsárlóni.
Þar réð hugmyndaauðgi og viljinn til að gera verðmæti úr engu. Lónið gæti enn legið óhreyft eða öllu heldur liðast hægt og bítandi til sjávar en atorkusemi og áhættutaka ráða því að þúsundir ferðalanga alstaðar að úr heiminum fara nú um svæðið á ári hverju og kynnast skriðjöklum Íslands og þeim ógnarkrafti sem býr í ísnum sem enn þekur um 10% af flatarmáli Íslands.
Fjöldi starfa hefur orðið til fyrir þetta framtak, ferðaþjónustan hefur eflst og afþreyingarmöguleikum fjölgað. Ríkissjóður hefur blásið út fyrir umsvif af þessu tagi og þannig hefur verið hægt að halda úti heilbrigðisþjónustu og menntakerfi – sem þó vill helst ekkert vita um það hvernig nemendum reiði af. Þeir eiga helst að geta skilgreint sjálfa sig og náungann, fremur en að geta reiknað eða lesið sér til gagns. En það er nú annað mál.
Annar er höfðingi nokkru austar. Ég hitti hann yfir drykk nú um páskana. Hann kom ungur maður frá Bandaríkjunum með hugmynd um að opna skyndibitastað á Íslandi. Hann er í dag kenndur við þá hugmynd. Sjaldnast kallaður annað en Skúli í Subway. Í rúma þrjá áratugi hefur hann rekið fjölda staða undir því nafni og er hvergi nærri hættur.
En á meðan flestum okkar myndi sortna fyrir augum að halda úti einum slíkum stað með þokkalegri gosvél hefur Skúli fundið sér fleira til dundurs. Nú síðast skammt norðaustur af Hrollaugseyjum.
Þannig hefur kappinn reist 120 herbergja hótel rétt austan við Fell og ekkert til sparað í því fyrirtæki öllu. Þar er þéttbókað og vel borgandi ferðamenn nýta sér aðstöðuna á meðan helstu perlur Suðausturlands og Austfjarða eru grandskoðaðar berum augum eða gegnum linsur farsíma og dýrgripa úr smiðju Leica, Sony og Canon.
Gjaldeyristekjur þjóðarbúsins af þessu eina hóteli nema milljörðum króna á ári. Yfir háannatímann starfar þar hátt í 100 manna hópur fólks víða að úr veröldinni. Í kringum þjónustuna hafa mörg önnur fyrirtæki talsverð umsvif og með gistimöguleika á svo afskekktum stað skapast tækifæri til enn frekari uppbyggingar afþreyingarferðaþjónustu af ýmsu tagi. Hvort sem það er á Jökulsárlóni, Fjallsárlóni, söndunum svörtu eða á jöklunum í norðri.
En það er ekki sjálfsagt að þetta hótel rísi þarna upp á túnunum austan jökulár. Hefði Skúli ekki fengið þessa flugu í höfuðið og hætt gríðarlegu fé í hugmyndina væru bara túnin þarna og melarnir. Sannarlega fallegir, en til lítils brúklegir við að skapa verðmæti fyrir land og þjóð.
Miðað við vaxtastigið og mörg önnur tækifæri í veröldinni verður það að teljast hálfgert kraftaverk að lúxushótel skuli finnast á þessum stað.
Vonandi verður Skúli moldríkur á hótelvafstrinu en gangi það eftir verður Ísland líka ríkara – og þjóðin um leið.
Það er nefnilega galdurinn með einkaframtakið og kraftana sem það leysir úr læðingi. Mikið væri gott ef ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur sæi þetta eins og það er, í stað þess að leita sífellt leiða til þess að draga kraftinn og kjarkinn úr fólki með endalausum skattheimtuhugmyndum. Hvenær hefðu embættismennirnir í fjármálaráðuneytinu, sem settu saman „matseðil“ af skattahækkanahugmyndum á ferðaþjónustuna, látið sér detta í hug að reisa hótel í Suðursveit og hætta öllu sínu til þess verks?
Aldrei. Þeir teldust góðir ef þeim tækist skammlaust að panta sér herbergi á slíku hóteli og rata svo alla leiðina austur. Og ef þeir gerðu það, væri það vísast bara á dagpeningum frá okkur hinum.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.