Vörumerki snýst alltaf um fólk, sterkt vörumerki býr í huga fólks hvort sem það er starfsfólk, viðskiptavinir eða aðrir hagaðilar. Sterkt vörumerki gefur samkeppnisforskot en ekki einungis hvað varðar viðskiptavini heldur býr það samkeppnisforskot í öflun hæfileika og laðar til sín gott starfsfólk. Segja má að vörumerki sé brúin á milli viðskiptavina og starfsmanna.
Fólk tengist vörumerki ekki einvörðungu í gegnum vöru eða þjónustu, heldur tengir það við gildi, menningu og þá upplifun sem vörumerkið stendur fyrir. Ánægðir samstilltir starfsmenn skila því betri upplifun alla leið til viðskiptavina.
Til að ná árangri þarf vörumerkið að hafa vel skilgreinda stefnu þar sem samvinna forstjóra, mannauðs- og markaðsstjóra tryggir að hún sé í takt við menningu fyrirtækisins.
Þessir aðilar eiga að nýta styrkleika hver annars til að innleiða sterka fyrirtækjamenningu, forstjórinn með sína einstöku sýn og drifkraft, mannauðssfólkið með sína þekkingu og skilning á ferlum og fólki, markaðssfólkið með styrk til að virkja, miðla og tengja.
Markaðsfólk kann að segja sögur, bæði inn á við og út á við, og þannig getur það stýrt breytingum, byggt upp menningu og almennt hvatt til góðra verka.
Rannsóknir sýna að þegar starfsfólk upplifir sig sem hluta af vörumerki fyrirtækisins verður til samheldni sem eykur starfsánægju. Þær sýna jafnframt að þegar starfsfólk finnur tilgang í starfi sínu og tengir við markmið fyrirtækisins og trúir á framtíðarsýn þess eykur það stolt þess ásamt því að það er tilbúið að leggja meira á sig til að taka þátt í vexti og þróun fyrirtækisins.
Þetta viðhorf ýtir undir sterka vinnustaðamenningu sem skilar sér til alla leið til viðskiptavina þar sem það styrkir orðspor fyrirtækisins sem skilar sér í betri rekstri og aukinni framlegð.
Þrátt fyrir þetta hættir fyrirtækjum til að vinna í sílóum þar sem mannauðsstjóri og markaðsstjóri hafa lítil samskipti um vörumerkið og því alls óvíst hvort þeir upplifi það á sama hátt. Þarna eru oft múrar á milli sem vaktaðir eru af landamæravörðum innan fyrirtækisins. Það er mikilvægt fyrir þessa verði að þekkja vel bæði ímynd og sjálfsmynd vörumerkisins.
Einungis þannig tryggja þeir nægar upplýsingar til að vinna störf sín sem best með hagsmuni fyrirtækisins að leiðarljósi.
Sterk vörumerki eru meðvituð um þetta og þekkja vel ímynd sína og sjálfsmynd, yfirleitt er einhver skörun á þessu tvennu og er mikilvægt að vita hver hún er. Þetta innsæi hjálpar vörumerkjum í stefnumiðaðri markaðssetningu og hjálpar þeim að aðlaga sig breyttum aðstæðum á markaði.
Þegar við rífum niður múrana milli mannauðs og markaðsmála skapast tækifæri til að byggja upp sterkara vörumerki, vörumerki sem fólk vill ekki aðeins versla við heldur vera hluti af.
Vörumerki sem byggir á gildum, menningu og samheldni er sterkara og á meiri möguleika á að vaxa til framtíðar. Þannig getur sterkt vörumerki orðið hreyfiafl innan fyrirtækja sem sameinar starfsfólk, kveikir með því eldmóð og löngun til að ná árangri ásamt því að auka hollustu og stolt.
Ekki gleyma því að starfsfólk er einn mikilvægasti markhópur allra vörumerkja.
Pistillinn birtist fyrst í ViðskiptaMogganum sem kom út sl. miðvikudag.