Áhrifa gervigreindar er farið að gæta víða í íslensku atvinnulífi. Hér og þar er fólk byrjað að prófa sig áfram og margir hafa uppgötvað að nota má forrit á borð við ChatGPT og Grok til að auka afköst og spara ýmis handtök.
Hugbúnaðargeirinn var með þeim fyrstu til að taka gervigreind í sína þjónustu enda kom það snemma í ljós að tæknin var nokkuð lagin við að skrifa tölvukóða, og er nú svo komið að vart má finna þann forritara sem ekki notar einhvers konar gervigreind við sín daglegu störf.
En hvaða áhrif hefur þessi þróun á vinnumarkaðinn? Eitthvað hlýtur jú að breytast þegar ný tækni margfaldar afköst fólks og núna virðist t.d. mega greina þess merki vestanhafs að hægt hafi á fjölgun starfa í hugbúnaðargeiranum, svo að mun fleiri umsækjendur eru um hvert laust starf.
Elvar Örn Þormar, stofnandi hugbúnaðarfyrirtækisins Reon, kveðst finna fyrir því að auðveldara sé að manna stöður forritara nú en oft áður, og algengra að finna megi mjög hæfa einstaklinga í umsækjendahópnum. „Um langt skeið hefur íslenski hugbúnaðargeirinn glímt við vöntun á fólki, og ég hugsa að til skamms tíma sé gervigreindin því ekki að valda atvinnuskorti í greininni, en sú framleiðniaukning sem við sjáum eiga sér stað þýðir að það hægir á ráðningum og minna verður tekið inn af nýju fólki. Verða það líklega þeir sem eru reynslulitlir eða nýkomnir úr námi sem munu þá standa verst að vígi.“
Elvar segir notagildi gervigreindar fyrir hugbúnaðargeirann einkum felast í því að leysa af hendi ýmis einfaldari verk, sem Elvar lýsir sem „handavinnu“. Það er af og frá að gervigreindin geti leyst forritarann af hólmi en starfið er að breytast og mikilvægt að forritari eigi auðvelt með að skilja kóða, geti lesið hann hratt og vel yfir og komið auga á vandamál. „Útkoman er sú að flinkur forritari er kannski þrisvar til fimm sinnum fljótari að leysa verkefni af hendi í dag. Með 10 manna teymi að störfum er ekki óalgengt að afköstin séu á við það sem 30 til 40 manna teymi gat framleitt áður,“ segir hann og bætir við að í sífellu bætist ný gervigreindartól í verkfærakistu hugbúnaðargeirans svo að reikna má með að afköstin muni halda áfram að batna.
Að mati Elvars þýða aukin afköst ekki að fólk í hugbúnaðargeiranum þurfi að óttast hrinu uppsagna og skort á störfum. Bæði eru gervigreindinni ákveðin takmörk sett og þá þýða bætt afköst að betri tími gefst til að sinna öðrum verkefnum. „Fólk mun einfaldlega færast inn í önnur hlutverk, og frekar en að verja nær öllum sínum tíma í að skrifa kóða fer kannski stærri hluti af vinnudeginum í skipulag, undirbúning og rannsóknir, þjálfun gagnamódela eða að ganga úr skugga um að sú vara sem verið er að smíða fylgi öllum stöðlum og reglum upp á hár,“ segir hann. „Eitt svið sem gervigreindin hefur ekki enn náð að umbylta er viðmótshönnun, og virðist þurfa mannlegt innsæi til að hanna og skapa viðmót sem er allt í senn; fallegt og aðgengilegt, og virkar eins og til er ætlast.“
Elvar grunar að gervigreindin muni leysa mikla krafta úr læðingi í íslensku atvinnulífi, enda er tæknin að ná að bæta upp stóran hluta af þeim mannauðsskorti sem plagað hefur tæknigeirann. „En gervigreind mun líka hjálpa til að leysa alls konar góðar hugmyndir úr læðingi, og getur gervigreind t.d. hjálpað fólki sem ekki er með þekkingu á forritun að smíða einfaldar frumgerðir til að koma hugmyndum sínum betur til skila. Það mun auka nýsköpun til muna að gervigreind geri fólki kleift að smíða frumgerðir mjög hratt og með mjög litlum tilkostnaði.“
Spurður í hvaða stellingar íslenska hagkerfið ætti að setja sig, nú þegar merkilegur nýr kafli í tæknisögunni virðist vera að renna upp, þá segir Elvar að það vinni með Íslendingum að vera fljótir að tileinka sér tækninýjungar, vera nokkuð vel tæknilæsir og óhræddir við að skapa. Elvar er bjartsýnn og grunar að ef eitthvað er geti gervigreind gefið íslensku atvinnulífi ákveðið forskot, a.m.k. tímabundið, og er æ fleira fólk, í öllum atvinnugreinum, byrjað að fikra sig áfram í notkun gervigreindar og farið að átta sig á notagildi tækninnar.
Fagfólk ætti, að mati Elvars, ekki að bíða mikið lengur með það að byrja að gera sínar eigin tilraunir með gervigreind. Má sennilega ekki finna það skrifstofustarf þar sem vinsælustu gervigreindarforritin geta ekki orðið að einhverju gagni, og óhætt að reikna með að gervigreindin muni leika æ stærra hlutverk í lífi fólks og starfi á komandi árum. Ekki þarf neina tæknimenntun til að vinna með gervigreind: aðeins tölvu, nettengingu, og svo sakar ekki að hafa góð tök á málinu og sterka rökhugsun, en forrit á borð við ChatGPT og Grok virka einfaldlega þannig að þeim eru gefin fyrirmæli í gegnum samtal. Með fiktinu má smám saman koma auga á nýja notkunarmöguleika og einnig koma auga á veikleika tækninnar. „Það gefur augaleið að ef tveir starfsmenn með sama titil vinna hjá fyrirtæki, og annar þeirra er byrjaður að nota gervigreind en hinn ekki, þá mun sá síðarnefndi dragast aftur úr. Þetta er verkfæri sem fólk þarf að kunna að nota.“
Viðtalið birtist upphaflega í Morgunblaðinu 28. apríl.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.