Gestur í viðskiptahluta Dagmála þessa vikuna er Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.
Spurð hverjar séu helstu áskoranirnar sem sjávarútvegurinn glími við nefnir hún pólitíksa landslagið bæði hér heima og erlendis.
„Stóru áskoranirnar eru, ef maður fyrst horfir út í heim, að þá er ég svo sem ekki að segja neinar nýjar fréttir að hið geópólitíska landslag er að hafa áhrif. Það er óvissa um sölu sjávarafurða. Og það eru einstök ríki að fá á sig háa tolla. Viðskipti finna sér yfirleitt farveg og það er bara spurning um hvar enda þessar afurðir. Ef að þær enda ekki inni í Bandaríkjunum þá munu þær enda einhvers staðar annars staðar, jafnvel á okkar sterkari mörkuðum eins og inni í Evrópu. Þannig að ef mikið framboð verður til viðbótar það framboð sem verið hefur á öðrum mörkuðum eins og inni í Evrópu, þá getur það auðvitað leitt til verðlækkana," segir Heiðrún og bendir á að það hafi sýnt sig að bandarískir neytendur séu fljótir að skipta yfir í ódýrari vörur við verðhækkanir.
„Maður veit í raun ekkert hvað er að fara að gerast eða hver áhrifin raunverulega verða. En þetta er bara allt breytingum háð þannig að þetta eru kannski stóru áhyggjurnar við það sem er að gerast úti í heimi og áhrif á íslenskan sjávarútveg. Síðan auðvitað hérna þetta pólitíska landslag eða það sem við erum að glíma við hérna heima núna. Það er að mínu viti bara enn stærri áskorun," segir Heiðrún.
Áskrifendur Morgunblaðsins geta horft á þáttinn í heild sinni hér: