Veitingamaðurinn Stefán Magnússon gæti átt yfir höfði sér sex ára fangelsisvist þar sem hann hefur verið ákærður fyrir 100 milljóna króna skattsvik. Stefán rak Reykjavík MEAT og veitingastaðinn í Sjálandi í Garðabæ þar til þau fóru á hausinn.
Þetta kemur fram í ákæru héraðssaksóknara sem mbl.is hefur undir hödnum. Stefáni er gefið að sök að standa ekki skil á opinberum gjöldum sem haldið var eftir af launum starfsmanna veitingastaðanna tveggja.
Héraðssaksóknari ákærir Stefán fyrir að hafa svikið ríflega 32 milljónir króna sem framkvæmdastjóri Steikar ehf. 2020-2022, og síðan svikið rúmlega 68 milljónir á árunum sem framkvæmdastjóri Gourmet ehf. á árunum 2021-2023.
Bæði félögin eru í dag gjaldþrota.
Málið varðar 262. gr. almennra hegningarlaga, að mati saksóknara, sem þýðir að Stefán gæti þurft að sæta allt að 6 ára fangelsi verði hann sakfelldur.
Steik ehf. rak veitingastaðinn Reykjavík MEAT fram að gjaldþroti 2021 og Gourmet ehf. hélt úti rekstri á veitingastaðnum Sjáland í Garðabæ áður en félagið fór í þrot í október 2023.
Stefán rekur einnig félagið Brunch ehf., sem rak veitingastaðinn Mathús Garðabæjar áður fyrr en eigendaskipti urðu árið 2022 og tók félagið MHG10 ehf. við rekstrinum. Brunch ehf. kemur ekki fyrir í ákærunni.