Þrátt fyrir mikla umræðu um tollastefnu Donalds Trumps og aukna óvissu á alþjóðamörkuðum hefur þróun hlutabréfamarkaða í apríl verið mun rólegri en fyrirsagnir hafa gefið til kynna.
S&P 500-vísitalan, sem mælir verðþróun 500 stærstu skráðu fyrirtækja í Bandaríkjunum, er innan við 1% lægri en hún var fyrir mánuði, samkvæmt samantekt Wall Street Journal og Bloomberg.
Þetta er lítil breyting, sérstaklega miðað við þá dramatísku umræðu sem skapaðist eftir að Trump tilkynnti nýja tolla á alþjóðavörur í byrjun apríl.
Samkvæmt greiningu Wall Street Journal hefur bandarískur hlutabréfamarkaður sýnt mikinn viðnámsþrótt gagnvart ytri áföllum að undanförnu. Þótt sumir fjárfestar hafi brugðist skyndilega við tilkynningunni hefur dregið úr sveiflum á síðustu vikum og vísitölurnar náð að jafna sig.
„Markaðirnir eru oft rólegri en fyrirsagnir fjölmiðla gefa til kynna,“ segir Liz Ann Sonders, aðalmarkaðsfræðingur hjá Charles Schwab, í samtali við Bloomberg.
„Fjárfestar læra fljótt að greina á milli raunverulegs efnahagslegs áfalls og pólitískrar umræðu.“
Greinendur benda á að markaðir hafi orðið vanari óvissu að undanförnu og að fjölbreytni og dýpt bandaríska markaðarins geri hann sveigjanlegri en margir gera sér grein fyrir.
Á Íslandi hefur þróunin verið neikvæð í apríl. OMXI15-vísitalan hefur lækkað um rúmlega 7% síðustu 30 daga og er nú niður um 14% frá áramótum. Þessi þróun endurspeglar ekki aðeins alþjóðlega óvissu heldur einnig innlenda þætti.
Aukin skattbyrði á lykilatvinnugreinar, svo sem ferðaþjónustu, og yfirvofandi aukin gjaldtaka á sjávarútveginn, sem og óvissa um framtíðarorkuöflun, hefur aukið á áhyggjur fjárfesta.
Vaxtahækkanir Seðlabankans þrengja einnig að heimilum og fyrirtækjum og verðbólguvæntingar á skuldabréfamarkaði gefa til kynna að fjárfestar búist ekki við miklum vaxtalækkunum á næstunni.
Sérfræðingar benda á að íslenski hlutabréfamarkaðurinn bregðist nú meira við innlendum efnahagsþrýstingi en áhrifum tollastefnu Bandaríkjanna.
Þótt fjölmiðlaumræða hafi verið hávær um áhrif tollastefnu Trumps á fjármálamarkaði benda tölur síðustu vikna til þess að áhrifin hafi í reynd verið hófleg til þessa.
„Það er mikilvægt fyrir fjárfesta að greina á milli hávaða og veruleika,“ segir Chris Harvey, yfirmaður hlutabréfagreininga hjá Wells Fargo, í nýlegri grein.
Þróun næstu vikna mun skýra hvort markaðir haldi áfram að standast sviptingar – eða hvort ný óvissuatriði komi fram sem hafi varanleg áhrif á fjárfesta.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.